Öfgahópar dreifa lygum á Facebook

AFP

Alþjóðlegu baráttusamtökin Avaaz hafa afhjúpað 500 síður öfgahópa á Facebook þar sem falsfréttum er dreift í undanfara Evrópuþingkosninga. Um er að ræða öfgahópa sem telja hvíta kynstofninn öðrum æðri. Fjallað er um þetta á vef Guardian og AFP-fréttastofunnar. 

Þar kemur fram að net öfgahópa hafi dreift lygum og hatri til milljóna íbúa Evrópu að undanförnu. Kosningar til Evrópuþingsins hefjast á morgun. Facebook hefur þegar lokað síðum sem voru með um sex milljónir fylgjenda og enn er unnið að rannsókn á hundruðum síðna þar sem fylgjendurnir eru um 26 milljónir talsins. 

Ekki frétt heldur brot úr kvikmynd

Alls hefur Avaaz tilkynnt um rúmlega 500 Facebook-síður og hópa í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Bretlandi, Póllandi og Spáni. Flestir þeirra dreifðu lygafréttum eða voru undir fölsku flaggi, svo sem gervimenn sem voru skráðir fyrir síðunum. Tilgangurinn virðist vera sá að auka fylgi stjórnmálaflokka sem aðhyllast popúlisma og öfga-þjóðernisskoðanir í þessum ríkjum. Síðurnar sem búið er að loka á Facebook höfðu verið heimsóttar í 500 milljónir skipta. 

Meðal annars hefur helförinni verið andmælt á þessum síðum í Þýskalandi og víðar og þar lýst yfir stuðningi við Alternativ für Deutschland-stjórnmálaflokkinn. Í Frakklandi hefur á þessum síðum verið hamrað á yfirburðum hvíta kynstofnsins og svipaðar skoðanir settar fram og Anders Breivik lýsti í stefnuyfirlýsingu sinni og ástralski hryðjuverkamaðurinn sem drap 51 múslima á Nýja-Sjálandi nýverið. 

Á Ítalíu hefur þeirri tækni verið beitt að setja upp síður þar sem áherslan er á alls konar hefðbundin málefni, svo sem tísku, knattspyrnu, heilsu o.fl. Síðan þegar fólk hefur skráð sig sem fylgjendur hefur síðunum verið breytt í pólitískt tæki. Til að mynda síða sem greinilega átti að laða að fólk í landbúnaði. Í framhaldinu fóru síðan að birtast fréttir til stuðnings  Bandalagsins, flokks Matteos Salvinis á Ítalíu. Til að mynda myndskeið sem átti að sýna flóttafólk berja á lögreglubíl. Hið sanna er að um myndbrot úr kvikmynd er að ræða sem ítrekað hefur verið tilkynnt um sem lygafrétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert