Þingnefndir fái aðgang að skattaskýrslu Trump

Þegar Donald Trump tók við embætti forseta í ársbyrjun 2017 …
Þegar Donald Trump tók við embætti forseta í ársbyrjun 2017 vék hann frá 40 ára gam­alli hefð Banda­ríkja­for­seta að op­in­bera skatta­skýrsl­ur sín­ar. AFP

Þingmenn í New York-ríki í Bandaríkjunum hafa samþykkt frumvarp sem gefur skattayfirvöldum í ríkinu leyfi til að afhenda þingnefndum Bandaríkjaþings skattaskýrslur Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. New York Times greinir frá.

Þegar Trump tók við embætti forseta í ársbyrjun 2017 vék hann frá 40 ára gam­alli hefð Banda­ríkja­for­seta að op­in­bera skatta­skýrsl­ur sín­ar.

NYT greindi frá því fyrr í þessum mánuði að Trump hefði tapað rúm­lega millj­arði Banda­ríkja­dala, um 134 millj­örðum króna, á tíu ára tíma­bili. Var tapið svo mikið að hann greiddi ekki tekju­skatt í átta ár af tíu og hafa fáir banda­rísk­ir skatt­greiðend­ur tapað jafn­há­um fjár­hæðum og Trump.

Frumvarpið, sem er alls níu síður, heimilar skattayfirvöldum í New York að afhenda hvaða þingnefnd sem er, af þeim þremur sem starfa við Bandaríkjaþing, gögn um skattaskýrslur forsetans. Þar sem New York er heimaríki forsetans, sem og viðskiptaveldi hans, eru gögnin að öllum líkindum þau sömu og er að finna í gögnum alríkisskattayfirvalda.

Búist er við að frumvarpið verði undirritað af Andrew M. Cuomo ríkisstjóra New York, en Cuomo er á sínu þriðja kjörtímabili fyrir Demókrataflokkinn og hefur gagnrýnt stefnu og gjörðir Trump harðlega frá því að hann tók við embætti.

mbl.is