50 bjargað úr klóm barnaníðinga

Fimmtíu börnum hefur verið bjargað og níu hafa verið handteknir í kjölfar rannsóknar Interpol á alþjóðlegum barnaníðshring. Samkvæmt frétt BBC voru handtökurnar vegna málsins framkvæmdar í Taílandi, Ástralíu og í Bandaríkjunum.

Rannsóknin hófst árið 2017 og sneri að vefsíðu á huldunetinu (e. dark web) með 63 þúsund skráða notendur, en lögreglan telur að yfir 100 börn hafi verið beitt ofbeldi í tengslum við vefsíðuna.

Unnið er að því að bera kennsl á börnin, en aðgerð Interpol, sem gekk undir nafninu Blackwrist, hófst í kjölfar þess að lögreglumenn komust á snoðir um ljósmyndir af ellefu drengjum undir 13 ára aldri hvar þeir sáust vera beittir ofbeldi.

Samkvæmt Interpol settu samtökin nýtt efni inn á vefsíðuna í hverri viku, og voru börnin oft grímuklædd til þess að gera yfirvöldum erfiðara fyrir að bera á þau kennsl.

Fyrsta handtakan í málinu fór fram á síðasta ári þegar aðalumsjónarmaður vefsíðunnar, Montri Salangam, var tekinn höndum í Taílandi. Salangam hafði meðal annars níðst á litlum frænda sínum og var dæmdur í 146 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert