Hinsta óskin að deyða heilbrigðan hund

Hundur af tegundinni shih tzu sem svipar til hundsins sem …
Hundur af tegundinni shih tzu sem svipar til hundsins sem var svæfður eftir lát eiganda síns. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hinsta ósk deyjandi hundseiganda var sú að kjölturakkinn hennar yrði svæfður að henni látinni og grafinn henni við hlið. Aðstandendur hennar urðu við ósk hennar þrátt fyrir að reynt hafi verið að fá þá til að skipta um skoðun.  BBC greinir frá.  

Hundurinn nefndist Emma og var af tegundinni shih tzu. Atvikið átti sér stað í mars síðastliðinn í Bandaríkjunum. Starfsmenn í hundaskýli í Virginíuríki reyndu í tvær vikur að fá aðstandendur konunnar til að leyfa hundinum að lifa og virða ekki hinstu óskir hennar. 

 „Við reyndum að benda aðstandendum á að við gætum auðveldlega fundið annað heimili fyrir hundinn,“ segir Carrie Jones, umsjónarmaður Chesterfield-dýraskjólsins í Virginíu.

Allt kom fyrir ekki og var Emma svæfð tveimur vikum síðar. Hundurinn var brenndur, settur í duftker og jarðaður með konunni. 

Atvikið vekur ýmsar spurningar, meðal annars um hvort svæfa megi heilbrigð dýr. Í fréttinni er rætt við dýralækna sem segjast fá fjölmargar beiðnir um að svæfa heilbrigð dýr. Ávallt er reynt eftir fremsta megni að komast hjá því og fá eigendur dýranna ráðgjöf um aðrar leiðir og er meðal annars bent á dýraskjól sem taka við slíkum dýrum.  

Samkvæmt lögum í Virginíuríki eru gæludýr eign eigenda sinna. Þar af leiðandi geta dýralæknar svæft dýr að ósk eigenda. Ólík löggjöf er í Bandaríkjunum milli ríkja og er leyft í sumum ríkjum að dýr séu jörðuð með eigendum sínum.

mbl.is