Hvernig virka Evrópuþingkosningar?

Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Bretlandi en þar, líkt og …
Kjörstaðir hafa verið opnaðir í Bretlandi en þar, líkt og ann­ars staðar í ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins, er verið að kjósa til Evr­ópuþings­ins. AFP

Kosningar til Evrópuþings hófust í dag og standa yfir fram á sunnudag. Tæplega 500 milljón íbúar í aðildarríkjunum 28 eru með kosningarétt og kjósa þeir 751 þingmann á Evrópuþingið.

Til stóð að fækka þingmönnum í 705 vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr ESB. Þar sem henni hefur verið frestað, að minnsta kosti fram í júní, taka Bretar þátt í kosningunum, en þeir eiga 73 sæti á þinginu.

Þingsályktunartillaga frá 2018 stendur samt sem áður. Í henni felst að þegar Bretar yfirgefa sambandið, hvenær sem það verður, verður þingsætunum fækkað í 705. Þeim 27 sætum sem vantar upp á eftir að Bretar missa sín 73 verður dreift á aðildarríki til að jafna hlutfall á milli íbúafjölda og kjörinna fulltrúa. Þannig fara fimm sæti til Frakklands og Spánar, þrjú til Hollands og Ítalíu, tvö til Írlands, og Austurríki, Danmörk, Finnland, Slóvakía, Króatía, Eistland, Pólland og Rúmenía bæta við sig einu sæti. Ekkert aðildarríki mun missa þingsæti. 

Þingmenn Evrópuþingsins eru kosnir í beinni kosningu í aðildarríkjunum til fimm ára í senn og er Evrópuþingið eina stofnun ESB þar sem fulltrúar eru kjörnir í beinni lýðræðislegri kosningu. Fyrstu beinu þingkosningarnar fóru fram árið 1979 en fram að því tóku fulltrúar af þjóðþingum aðildarríkjanna sæti á Evrópuþinginu. Fjöldi þingsæta hvers aðildarríkis veltur á íbúafjölda þess en þó ekki í beinu hlutfall við hann.

Fylkingar í takt við stjórnmálastefnur

Þingmennirnir geta boðið sig fram fyrir hönd stjórnmálaflokks í heimalandi sínu eða sem sjálfstæðir þingmenn. En þó svo að þeir séu kosnir í hverju aðildarríki fyrir sig skipa þeir sér í fylkingar eftir stjórnmálastefnum á sjálfu þinginu.

Átta skilgreindar fylkingar eru á þinginu. Stærsta fylkingin er mynduð af bandalagi hófsamra hægriflokka, EPP (European People's Party), sem er með 217 þingmenn. Þar á eftir kemur PES (Party of European Socialists), bandalag sósíalista og demókrata og saman mynda þessar fylkingar meirihlutabandalag á núverandi þingi, ásamt ALDE (Alliance of Liberalist and Democrats for Europe), en samanlagt hafa fylkingarnar þrjár 472 þingmenn (ljósbláir, appelsínugulir og gulir á skýringarmyndinni).

278 þingmenn mynda því stjórnarandstöðuna. Fjölmennastir eru þingmenn ECR (European Conservatives and Reformists), sem eru fylgjandi samstarfi innan Evrópu en ekki fylgjandi þróun ESB í átt að nánari samruna. Aðrar fylkingar sem tilheyra minnihlutanum eru EFDD (Europe of Freedom and Direct Democracy) og MENF (Movement for a Europe of Nations and Freedom).

Þó svo að Evrópuþingmenn séu kosnir í hverju aðildarríki fyrir …
Þó svo að Evrópuþingmenn séu kosnir í hverju aðildarríki fyrir sig skipa þeir sér í fylkingar eftir stjórnmálastefnum á sjálfu þinginu. Grafík/Evrópuþingið/BBC

Aukið vægi í ákvarðanatöku

Helsta hlutverk Evrópuþingsins er að fjalla um lagafrumvörp og vera leiðtogaráðinu innan handar. Vægi þingsins í ákvarðanatöku hefur aukist stig af stigi, nú síðast með Lissabon-sáttmálanum. Samþykki þingsins þarf fyrir fjárlögum Evrópusambandsins og hefur Evrópuþingið nýtt sér völd sín á þessu sviði til að hafa áhrif á þá málaflokka sem hafa útgjöld í för með sér.

Þingið gegnir einnig eftirlitshlutverki gagnvart öðrum stofnunum sambandsins og sinnir samskiptum við þjóðþing aðildarríkjanna. Þingið hefur aðsetur í Brussel en aðalfundir þess eru haldnir einu sinni í mánuði í Strassborg í Frakklandi.

Evrópuþingið hefur aðsetur í Brussel en aðalfundir þess eru haldnir …
Evrópuþingið hefur aðsetur í Brussel en aðalfundir þess eru haldnir einu sinni í mánuði í Strassborg í Frakklandi. AFP

Búist við að þjóðernissinnum á Evrópuþinginu fjölgi

Síðustu ár hafa flokkar sem eru á móti Evrópusamvinnu boðið fram til Evrópuþingsins, sem er ef til vill ákveðin þversögn, og í ár er útlit fyrir að róttækir hægriflokkar auki fylgi sitt í yfirstandandi kosningum, til að mynda flokkur Marine Le Pen, Rassemblement National í Frakklandi, og ítalska Bandalagið, flokkur Matteos Salvinis, innanríkisráðherra Ítalíu.

Stóru málin í kosningabaráttunni hingað til hafa verið innflytjendamál, efnahagsmál og loftslagsmál auk glæpavæðingar. Efnahagsmál hafa ávallt verið ríkjandi í aðdraganda Evrópuþingskosninga, 90% kjósenda nefndu þau sem mikilvægasta málefnið fyrir þar síðustu Evrópuþingskosningar, en einungis tæp 20% fyrir kosningarnar nú. Fleiri mál brenna því í brjósti kjósenda, til að mynda loftslagsmál, og nefna margir kjósendur ötula baráttu Gretu Thunberg í því samhengi og að henni hafi tekist að koma loftslagsvánni á kortið í Evrópu.

Innflytjendamál, efnahagsmál og loftslagsmál eru á meðal stóru málanna sem …
Innflytjendamál, efnahagsmál og loftslagsmál eru á meðal stóru málanna sem kosið er um í Evrópuþingkosningum að þessu sinni. Grafík/Eurobarometer/BBC

Kjördagarnir eru fjórir talsins, fyrstu kjörstaðir voru opnaðir klukk­an sex, til að mynda í Bretlandi og Hollandi, og verður lokað klukk­an 21. Úrslit­in verða síðan kunn­gjörð á sunnu­dags­kvöldið þegar öll 28 ríki ESB hafa lokið kosn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert