Kína losar enn ósoneyðandi efni

Kínverskt verksmiðjuhverfi. Mynd úr safni.
Kínverskt verksmiðjuhverfi. Mynd úr safni. AFP

Verksmiðjur í norðausturhluta Kína hafa sleppt miklu magni ósoneyðandi efna út í andrúmsloftið að sögn vísindamanna, en losunin er brot á alþjóðasáttmálum.

Guardian greinir frá málinu. Þrátt fyrir bann við að losa klórflúorkolefni, sem eyðir ósonlaginu, hafa um 7.000 tonn af efninu verið losuð á svæðinu frá 2013. Þetta kemur fram í grein sem birt er í vísindatímaritinu Nature.

„Mælingar okkar sýna mengunina rjúka upp þegar loft berst frá iðnaðarsvæðum í Kína,“ hefur Guardian eftir Sunyoung Park, einum höfunda skýrslunnar.

Klórflúorkolefnið CFC-11 var í mikilli notkun á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og var m.a. notað sem kæliefni og til að búa til einangrunarefni. Bann var síðan lagt við notkun þess árið 1987 og öllum öðrum úðaefnum sem eyða ósonlaginu.

Helsti sökudólgur í eyðingu ósonlagsins

Matt Rigby, sérfræðingur í andrúmsloftsefnafræði við háksólann í Bristol og fyrsti höfundur greinarinnar, segir klórflúorkolefni vera helsta sökudólginn í eyðingu ósonlagsins, sem verji jarðarbúa fyrir geislum sólar.

Eftir að bannið tók gildi dró reglulega úr styrk klórflúorkolefna í andrúmsloftinu fram til ársins 2012. Á síðasta ári uppgötvuðu vísindamenn hins vegar að verulega hægði á minnkun efnisins á árabilinu 2013-2017. Þar sem klórflúorkolefni verður ekki til í náttúrunni var áframhaldandi losun eina skýringin.

Ýmislegt benti til að uppruna losunarinnar væri að finna í Asíu, en ekki tókst í fyrstu að finna upprunastaðinn þar sem mælistöðvar voru á afskekktum stöðum fjarri mögulegum uppruna losunarinnar.

Í skýrslu EIA-um­hverf­is­sam­takanna (En­vironmental In­vestigati­on Agency) í fyrra voru líklegir sökudólgar sagðir vera verksmiðjur í Shangdong- og Heibei-héruðunum í Kína, sem framleiða þar froðu. Segir Guardian þessar grunsemdir hafa styrkst enn frekar þegar kínversk yfirvöld lokuðu nokkrum þessara verksmiðja án frekari skýringa.

Til að rannsaka málið frekar hefur alþjóðlegt teymi vísindamanna nú safnað gögnum frá mælistöðvum í Japan og Taívan, sem staðfestu uppruna klórflúorkolefnisins. „Við fundum engar vísbendingar um aukna losun frá Japan, Kóreuskaga eða nokkru öðru landi,“ sagði Luke Western, vísindamaður við Bristol-háskóla.

Guardian segir þessar niðurstöður hafa áhrif í baráttunni gegn loftslagsvánni, en Joanna Haigh, prófessor við Imperial College London, sagði í skýrslu EIA í fyrra að áframhaldandi losun ósoneyðandi efna gæti seinkað því að ósonlagið næði sínum fyrri styrk og yrði ekki látið af þessari iðju gæti það tekið áratugi fyrir gat ósonlagsins yfir suðurskautinu að lokast.

mbl.is