Tveir létust á Everest í gær

Fjölmargir hafa reynt að komast upp Everest-tindinn að undanförnu.
Fjölmargir hafa reynt að komast upp Everest-tindinn að undanförnu. AFP

Tveir fjallgöngumenn frá Bandaríkjunum og Indlandi létust á Everest-tindi í gær en mikil biðröð hefur verið við toppinn.

Íslendingarnir Bjarni Ármannsson, Leifur Örn Svavarsson og Lýður Guðmundsson komust allir á tindinn í morgun.

Yfir tvö hundruð fjallgöngumenn ákváðu að nýta sér hagstætt veður í gær og reyna við tindinn. Sumir ætluðu að ganga upp fjallið frá Nepal en aðrir frá Kína. Hóparnir þurftu aftur á móti að bíða í klukkustundir eftir því að komast á toppinn og áttu því í aukinni hættu á að fá kal eða hæðarveiki.

Bandaríkjamaðurinn Donald Lynn Cash, 55 ára, hneig niður á tindinum í gær þegar hann var að taka ljósmyndir. Anjali Kulkarni, einnig 55 ára, lést þegar hún var á leiðinni niður eftir að hafa komist upp á tindinn.

Eins og sjá má var biðröðin upp á Everest löng …
Eins og sjá má var biðröðin upp á Everest löng í gær. AFP

Að sögn Arun Treks, sem skipulagði ferðina fyrir Kulkarni, lést hún vegna biðraðarinnar við tindinn.

„Hún þurfti að bíða lengi eftir því að komast á tindinn og fara svo niður,“ sagði Thupden Sherpa. „Hún gat ekki farið niður sjálf og lést þegar sjerpar voru á leið með hana niður.“

Að sögn Pasang Tenje Sherpa, frá fyrirtækinu Pioneer Adventure, hneig Cash til jarðar á tindinum og lést skammt frá Hillary-þrepi.

Í síðustu viku lést indverskur fjallgöngumaður, auk þess sem Íri er talinn látinn eftir að hann rann til og féll niður skammt frá tindinum.

Yfirvöld í Nepal hafa veitt 381 leyfi til uppgöngu á Everest á þessu ári en hvert þeirra kostar 11 þúsund dollara, eða hátt í 1,4 milljónir króna.  

mbl.is