Var undanþegin bílbeltanotkun og lést

Ljósmynd/Wikipedia.org

Tæplega sextug bresk kona, sem lést í umferðarslysi í janúar á síðasta ári, var ekki í bílbelti þar sem hún hafði fengið undanþágu frá notkun þess af heilsufarsástæðum.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að konan, Sarah Evans, hafi fengið undanþágu frá notkun bílbeltis uppáskrifaða frá lækni vegna kviðslits. Þetta hafi meðal annars komið fram við rannsókn málsins.

Evans var farþegi í bifreið sem dóttir hennar ók og sat í farþegasætinu við hlið hennar þegar bifreiðin lenti utan vegar og ók á vegrið í þorpinu Llangyfelach með þeim afleiðingum að hún þeyttist í gegnum framrúðu bifreiðarinnar.

Fyrstu viðbrögð dóttur Evans, Rachel Evans, var að ásaka sig sjálfa um að hafa orðið móður sinni að bana. Hún sagði við rannsókn málsins að hún myndi ekki nákvæmlega hvað gerðist en ekkert benti til þess að hún hefði ekið yfir löglegum hámarkshraða. Þá voru engin merki um áfengi eða fíkniefni í blóði hennar.

Var frekari rannsókn á málinu fyrir vikið hætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina