30 manns handteknir í jógatíma

Jóga er bannað í Íran.
Jóga er bannað í Íran.

30 manns voru handteknir í jógatíma í Íran. Fólkið, bæði konur og karlar, var í heimahúsi í borginni Gorgan í norðurhluta landsins að iðka jóga. Öll íþróttaiðkun þar sem karlar og konur eru saman er bönnuð samkvæmt lögum. BBC greinir frá

Jógakennarinn, sem einnig var handtekinn, var ekki með tilskilin réttindi og hafði auk þess auglýst kennsluna á samfélagsmiðlinum Instagram, samkvæmt Massoud Soleimani starfsmanni dómsmálaráðuneytisins í Íran. Öll jógakennsla er bönnuð í landinu. 

Hann sagði jafnframt að fólkið hefði verið í „óviðeigandi klæðnaði“ og hefði sýnt af sér „ósæmilega hegðun“. Hann tilgreindi ekki nánar í hverju þessi slæma hegðun fólst. Yfirvöld höfðu fylgst náið með fólkinu um tíma áður en það var handtekið.  

Sjaría-lög eru í gildi í Íran. Samkvæmt þeim er meðal annars háttarlag eins og fólkið sýndi stranglega bannað. Þess má geta að árið 2017 var íþróttaiðkunin zumba, þar sem fólk dansar við tónlist, bönnuð.    

Athæfið hefur vakið mikið umtal á samfélagsmiðlum. 

mbl.is