Á bak við lás og slá í 67 ár

Fangelsi í Bandaríkjunum
Fangelsi í Bandaríkjunum AFP

John Phillips hefur setið á bak við lás og slá síðan 8. apríl 1952 eða í 67 ár eða frá því hann var handtekinn grunaður um kynferðislegt ofbeldi. Hann var 18 ára gamall og aðeins í 9. bekk. Þegar hann var handtekinn var hann sendur í mat hjá geðdeild fyrir svart fólk. Matið var einfalt: „fátviti (moron)“ og að andlegur þroski hans væri á við sjö ára og sjö mánaða gamalt barn. Yfirlýsing lögmanns hans var sekur og dómarinn dæmdi hann í lífstíðarfangelsi. 

Þetta kemur fram í grein á bandaríska fréttavefnum Marshall Project. Þar segir að enginn fangi hafi afplánað jafn lengi og Pillips í ríkinu, Norður-Karólínu. Phillips, sem er 85 ára gamall, gengur undir viðurnefninu „hneta (peanut)“ og er þar vísað til greindar hans. 

Hann fer leiðar sinnar í fangelsinu með aðstoð göngustafs og áratugir eru síðan hann dreymdi um frelsi. 

„Ég er ekki að fara neitt,“ sagði Phillips í viðtali nýverið í Randolph-fangelsinu sem er opið fangelsi. „Það er of mikið af afglöpum þar.“

Líf hans er kannski dæmigert fyrir fatlað fólk í fangelsum Bandaríkjanna, segir Leigh Ann Davis, sem hefur í 23 ár stýrt miðstöð sem berst fyrir réttindum fólks með þroskaraskanir, National Center on Criminal Justice and Disability at The Arc.

Phillips getur ekki varið sig sjálfur, hvort heldur sem er fyrir rétti eða innan veggja fangelsisins. Hann skilur ekki málsmeðferð og hann gerir það sem honum er sagt. Í 29 ár eru agabrotin engin og áður voru þau minniháttar. Til að mynda að taka þátt í veðmálum og ósæmilegt orðbragð.

Frétt News Observer

Þrátt fyrir að lögmaður hans hafi játað sök fyrir hönd Phillips hefur hann alltaf haldið fram sakleysi sínu. Þar sem engin gögn eru fyrir hendi er ekki hægt að rannsaka málið að nýju.

„Hvað ætli það séu margir sem eru í svipuðum sporum og hann í fangelsum okkar?“ spyr Davis. „Við vitum það ekki þar sem það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um það.“

Yfirvöld í Norður-Karólínu segja að innan við 2% fanga í ríkinu séu með greindarvísitölu 70 eða lægri. Samkvæmt upplýsingum frá The Arc eru 4-10% fanga í Bandaríkjunum með greindarvísitöluna 75 eða lægri. Fangelsismálastofnun segir að um 20% fanga séu með einhverjar raskanir, svo sem eiga erfitt með nám, lesblindu o.fl. 

Phillips ólst upp í bænum Durham og er einn sjö systkina sem eru alin upp af móður sinni. Fjölskyldan bjó í einu herbergi í húsi við lestarteinana sem skildu að hverfi svartra og hvítra. „Ég þekki ekki pabba minn,“ segir Phillips. „Hann drakk áfengi.“
Lítið er vitað um æsku hans annað en að hann hafi eitt skipti stokkið út í sundlaug skólans og sokkið. Honum var bjargað af sundlaugarverði og skólasystkini hlógu enda héldu þau að hann væri að grínast. Phillips var ánægður með athyglina sem hann fékk þannig að hann kom daglega og stökk út í djúpu laugina svo þau myndu hlæja að honum. Þetta endaði með því að honum var bannað að koma nálægt sundlauginni. 

Vorið 1952 var ráðist á fjögurra ára gamla stúlku skammt frá leikvelli. Þremur dögum síðar var stúlkan rannsökuð á sjúkrahúsi og sögðu læknar við lögreglu að hún hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Phillips var handtekinn daginn eftir og játaði hann að hafa ráðist á barnið en hætt þegar hann hafi áttað sig á því að það sem hann væri að gera væri rangt. Refsingin við nauðgun var dauðadómur og frá 1920 voru 88% þeirra sem voru teknir af lífi fyrir nauðgun annaðhvort svartir eða frumbyggjar (indíánar). Á forsíðu Durham Morning Herald sagði: Játning samþykkt og því losnar ákærði við aftöku.

Phillips segir að hann muni enn eftir þessum degi í réttarsalnum árið 1952: „Þeir sögðu að ég mætti lifa.“

mbl.is