Lést eftir að takmarkinu var náð

Mount Everest.
Mount Everest. AFP

Í desember síðastliðnum sagði Donald Cash upp störfum sem hugbúnaðarsölumaður svo að hann gæti náð takmarki sínu sem var að klífa hæstu fjöll heimsálfanna sjö. Hann lést skömmu eftir að hann hafði komist á tind Everest, sem var síðasta fjallið á listanum hans.

Þetta sagði fjölskyldan hans í samtali við New York Times en Cash var einn tveggja sem létust á fjallinu á miðvikudag. Síðan þá hafa þrír til viðbótar látist. Þrír Íslendingar komust á tindinn í gær. 

Cash, sem var 54 ára frá Sandy í Utah, féll í yfirlið eftir að hann komst á tindinn og ekki tókst að endurlífga hann. Dóttir hans Brandalin Cash og sonurinn Tanner Cash telja að hann hafi fengið hjartaáfall.

Mount Everest í Himalayafjöllum er hæsta fjall veraldar, 8.848 metrar.

Það leið yfir Cash vegna hæðarveiki og fékk hann hjálp frá sjerpum, að sögn fyrirtækisins Pioneer Adventures sem skipuleggur ferðir á Everest. Þegar hann var á leiðinni í búðir skammt frá Hillary-þrepi leið aftur yfir hann og sjerpunum tókst ekki að lífga hann við.

Að sögn barnanna hans sagði Cash upp starfi sínu í desember til að klífa tvö síðustu fjöllin á lista hans en ævintýrið hófst árið 2015. Þau sáu föður sinn síðast í apríl þegar lagði af stað til Everest, sjöunda og síðasta fjallsins á listanum.

Áður en hann fór kom fjölskyldan saman til að „blessa“ Cash.

Að sögn Brandalin Cash urðu fjallgöngur föður hennar meðal annars til þess að hann missti fingur og tær. Lík hans verður ekki flutt heim til Utah. Börnin hans sögðu að hann hefði oft talað um að hann hefði skrifað undir skjal um að lík hans skyldi skilið eftir ef hann myndi deyja í fjallgöngu. Brandalin bætti því við að faðir hennar hefði frekar viljað deyja á fjalli heldur en í sjúkrarúmi.

„Hann var stærri en lífið sjálft,“ sagði Josh Ray sem var vinur Cash og starfaði með honum hjá Adobe. Hann hrósaði honum fyrir hugrekkið. „Hann var stór náungi. Hann var alltaf glaður. Alltaf brosandi.“ Hann bætti við að Cash hefði elskað fjölskylduna sína og lifað lífi sínu til fullnustu.

Ljósmynd frá Everest, tekin á miðvikudaginn, sem sýnir biðröðina við …
Ljósmynd frá Everest, tekin á miðvikudaginn, sem sýnir biðröðina við tindinn. AFP

Brandalin Cash minntist föður síns á Instagram og skrifaði meðal annars: „Ég veit að hann er í höndum Guðs.“ Tanner Cash sagði að faðir sinn hefði átt eina ósk fyrir þá sem þekktu hann: „Gerið eitthvað sem felur í sér áskorun og gerið það til heiðurs honum.“

Yfir sex hundruð manns komast á tind Everest á hverju ári, sem er um helmingur þeirra sem spreyta sig á fjallinu. Ekki allir komast lífs af. Að sögn nepalskra yfirvalda eru um tvö hundruð lík enn eftir á fjallinu.

Fjórðu búðir Everest.
Fjórðu búðir Everest. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert