Þrettán særðust í árásinni

AFP

Fyrir liggur að þrettán manns særðust þegar sprengja sprakk í göngugötu í borginni Lyon í Frakklandi í dag að því er segir í frétt AFP. Fyrstu fréttir hermdu að átta hefðu særst.

Talið er að um hryðjuverk hafi verið að ræða og leitar franska lögreglan karlmanns sem talinn er hafa komið sprengjunni fyrir utan við bakarí við götuna.

Sprengjan innihélt skrúfur og rær sem þeyttust í allar áttir þegar sprengjan sprakk um klukkan 15:30 í dag að íslenskum tíma.

Talið er að árásarmaðurinn sé á fertugsaldri og hafi ferðast um á fjallahjóli þegar hann kom sprengjunni fyrir miðað við framburð sjónarvotta og upptökur úr eftirlitsmyndavélum.

Ellefu af þeim þrettán sem særðust voru fluttir á sjúkrahús. Enginn er þó talinn í lífshættu.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert