Tveir drengir látnir í „alvarlegu atviki“

Breska lögreglan rannsakar málið.
Breska lögreglan rannsakar málið. AFP

Tveir drengir á unglingsaldri eru látnir og fjögur börn liggja slösuð á spítala eftir alvarlegt atvik í borginni Sheffield á Englandi. Samkvæmt lögreglu barst tilkynning um að eitthvað væri á seyði kl. 7:30 í morgunsárið. Karl og kona á fertugsaldri eru í haldi lögreglunnar.

Greint er frá málinu á vef Guardian, en þar segir að drengirnir tveir sem látnir eru hafi verið þrettán og fjórtán ára. 

Börnin fjögur sem lögð voru inn á sjúkrahús eru tíu ára, ellefu ára, þriggja ára og sjö mánaða gömul. Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru þau öll með meðvitund en verða ekki útskrifuð á næstu klukkustundum.

Lögregla telur ekki að fleiri hafi komið að atvikinu og segir að þrátt fyrir orðróm um að vopn hafi verið notuð sé samfélagið í Sheffield óhult. Rannsókn lögreglu er í fullum gangi.

Enn liggur ekki fyrir hvað kom fyrir í húsinu í Sheffield og er dánarorsök drengjanna tveggja ókunn. Til stendur að kryfja lík þeirra síðar í dag í tilraun til þess að fá botn í málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert