Uppljóstrari, blaðamaður eða njósnari?

AFP

Er hann uppljóstrari, blaðamaður eða njósnari? Þetta eru spurningar sem menn hafa deilt um undanfarinn áratug. Nú hafa bandarísk stjórnvöld svarað hvað þau telja en í gær var Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, ákærður fyrir að brjóta gegn njósna­lög­gjöf Banda­ríkj­anna vegna birt­ing­ar á leyni­leg­um hernaðar- og stjórn­sýslu­gögn­um. Ákæruliðirnir eru 17 talsins. 

Hvaða áhrif geta nýjar ákærur á hendur Julian Assange haft á fjölmiðlafrelsi? er spurning sem Jonathan Turley, lagaprófessor við George Washington-háskólann, veltir fyrir sér í grein á vef BBC. En ákæran byggist á gögnum frá Chelsea Manning sem vann á þeim tíma við greiningar á leynilegum upplýsingum hjá Bandaríkjaher. Hún var dæmd í 35 ára fang­elsi af her­dóm­stóli árið 2013 en hún var hand­tek­in 2010. Barack Obama, þáver­andi Banda­ríkja­for­seti, mildaði dóm­inn yfir Mann­ing árið 2017 en þá hafði hún setið í fangelsi í sjö ár. 

Mikilvægasta málið varðandi túlkun á hugtakinu 

Turley segir að með ákærunum nú hafi bandarísk stjórnvöld gengið lengra en áður hafi verið gert og um leið verði málið væntanlega það mikilvægasta þegar kemur að frelsi fjölmiðla í Bandaríkjunum í 300 ár. 

Turley segir að á sama tíma og hart hafi verið deilt um aðgerðir Assange og stöðu hans þá hafi birting leynilegra upplýsinga eins og Wikileaks hefur gert verið álitin ákveðin tegund blaðamennsku. Það sem meira er - tilraunir til þess hafa yfirleitt mistekist og bendir hann á Pentagon-skjölin árið 1971 máli sínu til stuðnings.

Stuðningsmenn Assange benda á að birting gagnanna hafi upplýst um mögulega stríðsglæpi í Afganistan og Írak sem hefðu væntanlega ekki orðið opinberir nema með birtingu þessara gagna. „Ef það er glæpsamlegt af Assange að taka við og birta slíkar upplýsingar þá er stór hluti af bandarískri blaðamennsku í raun áræðin glæpastarfsemi,“ segir í grein Turley á BBC.

Í apríl komust stjórnvöld undan því að svara þessu álitaefni með því að ákæra Assange fyrir samsæri um tölvuinnbrot. Ákæran tengist því að hann hafi aðstoðað Manning við að komast inn í tölvukerfi varnarmálaráðuneytisins árið 2010. Með þeirri ákæru var dómsmálaráðuneytið að ákæra hann sem útgefanda. En þetta breyttist í gær, því ákæran byggist á njósnalögum frá 1917. Lög sem voru sett eftir fyrri heimsstyrjöldina og var beitt til þess að hafa hendur í hári andstæðinga stríðsrekstrar og pólitískra andófsmanna. 

Meðal þeirra sem hafa verið ákærð á grundvelli þessara laga eru þýsk-ameríski þingmaðurinn og ritstjórinn Victor Berger, anarkistinn Emma Goldman og Eugene Debs, sem var fimm sinnum frambjóðandi sósíalista í forsetakosningum. 

Því hefur lengi verið haldið fram að lögin standist ekki stjórnarskrá með því að gera móttöku og birtingu leyniupplýsinga saknæma. Það komi því ekki á óvart að dómsmálaráðuneytið hafi þurft að nota þessi lög til þess að ná þessu fyrirlitlega markmiði sínu fram, skrifar lagaprófessorinn. 

Blaðamaður eða ekki blaðamaður

Ákæruliðir 9-17 varða birtingu upplýsinga um þjóðaröryggi. Dómsmálaráðuneytið leggur ýmislegt á sig til þess að halda því fram að Assange sé ekki blaðamaður í ákærunum og hann hafi ekki aðeins birt leynilegar upplýsingar heldur einnig upplýst um heimildarmenn leyniþjónustunnar. En að sögn Turley má það frekar dæmast á hversu lélegur blaðamaður Assange er. Það breyti því hins vegar ekki að hann er blaðamaður.

Þetta er hinsvegar ekkert nýtt því ríkisstjórn Baracks Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, nýtti sér þessi lög til þess að fylgjast með hefðbundnum blaðamönnum, þar á meðal þekktum fréttamanni Fox News. En hættan gæti verið meiri nú þegar forseti landsins telur fjölmiðla vera óvini fólksins. 

Ríkisstjórn Obama nýtti sér ekki möguleikann á að ákæra Assange á grundvelli njósnalaganna vegna hættunnar sem því fylgdi fyrir frelsi fjölmiðla. En William Barr dómsmálaráðherra og Trump hafa nú farið yfir þetta Rúbíkon; þar vísar Turly á fljót á fornum landamærum Ítalíu og Gallíu Cisalpínu. Árið 49 f.Kr. tók Júlíus Sesar þá ákvörðun að halda með her sinn suður yfir fljótið og inn í Ítalíu og hófst þar með borgarastyrjöld sem lauk með einveldi hans.

Þetta gerist á sama tíma og blaðamenn eiga víða undir högg að sækja. Blaðamenn eru handteknir og drepnir æ oftar. Í löndum eins og Kína og Rússlandi eru ráðamenn farnir að nota svipað orðfæri og Trump um lygafréttir til þess að brjóta fjölmiðla á bak aftur. Svo ekki sé minnst á hrottalegt morð á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi á ræðismannsskrifstofu landsins í Istanbul. 

En það er ekkert nýtt að ráðist sé að frelsi fjölmiðla, segir Turley. Fyrr í vikunni hóf franska ríkisstjórnin opinbera rannsókn á þremur blaðamönnum sem upplýstu um meintar lygar franskra embættismanna um þeirra hlut í stríðinu í Jemen.

Eins var Ariane Chemin, blaðamaður Le Monde, kölluð á teppið fyrir hafa birt neyðarlegar upplýsingar um fyrrverandi lífvörð forseta landsins, Emmanuel Macron. 

„Nú eru Bandaríkin, sem áður var brjóstvörn frjálsrar fjölmiðlunar, að reyna að sýna fram á að hvaða blaðamaður sem er eigi á hættu að vera saksóttur fyrir að birta leynilegar upplýsingar,“ segir í greininni. Þetta þýðir að allir blaðamenn séu í stöðugri hættu á að vera undir eftirliti og saksóttir, segir Jonathan Turley í grein sinni á vef BBC.

Í svipaðan streng tekur Jon Allsop á vef Columbia Journalism Review, sem segir að ákæran sé skelfileg ógn við fjölmiðlafrelsi. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert