Gert að leysa skip og áhöfn úr haldi

Mynd frá nóvember 2018. Einn tuttugu og fjögurra úkraínskra áhafnarmeðlima …
Mynd frá nóvember 2018. Einn tuttugu og fjögurra úkraínskra áhafnarmeðlima leiddur fyrir rétt í Krím. AFP

Alþjóðlegi hafréttardómurinn í Hamborg úrskurðaði í dag að Rússland skuli tafarlaust sleppa þremur úkraínskum herskipum og 24 áhafnarmeðlimum úr haldi. Þau voru hneppt á Krímskaga í nóvember.

Landhelgisgæsla Rússlands stöðvaði skipin 25. nóvember 2018 eftir árangurslausa tilraun þeirra til að sigla frá Odessa við Svartahaf til Berdyansk á Azov-hafi í gegnum Kerch-sundið sem liggur við Krímskaga. 

Tómas H. Heiðar var dómari í réttarhöldunum. Hann hefur verið dómari við dómstólinn frá því 2014.

Rússar héldu og halda því fram að herskipin hefðu farið inn í rússneska lögsögu og þar með gerst brotlegir við rússnesk lög. Málaferli standa yfir gegn áhafnarmeðlimunum fyrir það og í máli Úkraínumanna fyrir hafréttardóminum var þess krafist að málaferlunum yrði hætt, auk hinnar kröfunnar um að mennirnir yrðu leystir úr haldi. Ekki var fallist á að gera Rússum að hætta málaferlunum en á hitt var fallist, að Rússum yrði gert að leysa skipin og mennina úr haldi.

Samkvæmt BBC, munu Rússar ekki gangast við niðurstöðu dómsins. Fulltrúar Rússa voru ekki viðstaddir réttarhöldin, með vísan til þess að þeir teldu dóminn ekki hafa lögsögu í málinu. Þeir skiluðu hins vegar greinargerð og komi sjónarmiðum sínum á framfæri þar. 

Það var í loks mars sem Úkraína höfðaði málið gegn Rússum við hafréttardómstólinn. Alþjóðlegi hafréttardómurinn hefur sérstaka lögsögu til að mæla fyrir um bráðabirgðaráðstafanir samkvæmt hafréttarsamningum. Í þessum réttarhöldum voru 19 dómarar sammála úrskurðinum en einn ósammála. Það var rússneski dómarinn.

Átökin sem brutust út á milli Rússa og Úkraínumanna í …
Átökin sem brutust út á milli Rússa og Úkraínumanna í nóvember voru alvarlegustu beinu átök á milli þjóðanna í deilu, sem hefur staðið yfir á milli nágrannanna lengur en í fimm ár. AFP PHOTO/KERCH INFO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert