Innbrotsþjófur stal engu en tók til

Huldumaður nokkur braust inn í hús í Bandaríkjunum og þreif …
Huldumaður nokkur braust inn í hús í Bandaríkjunum og þreif það hátt og lágt. mbl.is/FotoDuets/Getty Images

Bandaríkjamaður nokkur fékk þá ónotatilfinningu á dögunum að einhver hefði verið inni í húsinu hans á meðan hann var fjarri. Það skrítnasta við málið var að engu var rænt. Í staðinn hafði íbúðin verið þrifin hátt og lágt.

Hann var að koma heim með syni sínum. „Pabbi, það er ólæst!“ sagði sonur hans. „Ég skil það eftir ólæst við og við og pældi ekki meira í því. En þegar ég kom inn fann ég strax að eitthvað skrýtið hafði átt sér stað,“ sagði hann. 

Hann fór á stjá um húsið að kanna hvort einhverju hefði verið stolið. Nei, svo var ekki. Hann kom inn í herbergi sonar síns, þar sem allt hafði verið í hálfgerðri rúst daginn áður og viti menn: þar var allt tandurhreint. 

Maðurinn, Nate Roman, býr í Boston í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Hann hefur enga hugmynd um hver var að verki. Tiltektin var svo vönduð að hann fór að gruna að um hefði verið að ræða fagfólk í ræstingum sem hefði farið húsavillt. En enginn hefur gefið sig fram.

Roman virðist hinn ánægðasti en vonbrigðin voru þó þau, að huldumaðurinn sleppti eldhúsinu. Hann neyðist til að sjá um það sjálfur.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert