Leita enn árásarmannsins

Lögreglumenn fyrir framan bakaríð hvar sprengjan sprakk í gærkvöldi.
Lögreglumenn fyrir framan bakaríð hvar sprengjan sprakk í gærkvöldi. AFP

Franska lögreglan leitar enn karlmanns á fertugsaldri sem grunur leikur á að hafi komið fyrir sprengju fyrir utan bakarí við fjölfarna göngugötu í borginni Lyon í Frakklandi. Þrettán manns særðust þegar sprengjan sprakk en hún innihélt skrúfur og rær.

Haft er eftir saksóknaranum Remy Heitz í frétt AFP að ekkert sé til sparað við að hafa uppi á árásarmanninum. Segir hann að 90 rannsóknarlögreglumenn séu að sinna málinu sem og 30 sérfræðingar í tæknideild lögreglummar.

Mynd af manninum úr eftirlitsmyndavél hefur verið dreift til almennings en hann huldi andlit sitt þegar hann kom sprengjunni fyrir. Lögreglan segist hafa fengið tugi ábendinga vegna sprengingarinnar sem varð í gærkvöldi.

Málið er rannsakað sem mögulegt hryðjuverk en dómsmálaráðherra Frakklands Nicole Belloubet hefur sagt að ótímabært sé að fullyrða að svo hafi verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert