Lífstíðardómur fyrir ránið á Jayme Closs

Jayme Closs.
Jayme Closs. Ljósmynd/FBI Milwaukee

Wiscons­in-búinn Jake Patterson, 21 árs, sem var í janúar ákærður fyrir að hafa myrt foreldra hinnar 13 ára gömlu Jayme Closs og rænt henni í kjölfarið, hefur verið sakfelldur. Var Patterson dæmdur til tvöfalds lífstíðarfangelsis án möguleika á skilorði fyrir morðin og 40 ára fangelsis fyrir mannránið.

Patterson hefur lýst því hvernig hann ákvað að nema Jayme á brott eftir að hafa séð hana ganga um borð í skólabíl. Jayme fannst á lífi í janúar eftir að hafa flúið afskekktan kofa þar sem Patterson hafði haldið henni gegn vilja hennar í 88 daga.

James Babler, dómari í umdæmisdómstóli Barron-sýslu í Wisconsin, sagði í samtali við BBC að glæpur Patterson væri „svívirðilegur og hættulegur.“ Þá sagði hann að samfélaginu stafaði mikil hætta af Patterson vegna hugrenninga hans um að „taka fjölda stelpna og myrða fjölda fjölskyldna.“

Jake Thomas Patterson.
Jake Thomas Patterson. AFP

Í skriflegum framburði sínum sagðist Closs hafa fylgst gaumgæfulega með daglegum venjum Patterson og náð að flýja þegar hann yfirgaf kofann. „Ég endurheimti frelsið mitt. Ég mun alltaf hafa frelsið mitt og hann ekki,“ segir í framburðinum.

„Jake Patterson mun aldrei svipta mig hugrekkinu. Það sem hann gerði er það sem heigull myndi gera. Ég var hugrökk, hann var það ekki.“

Lögmenn Patterson sögðu að félagsleg einangrun allt hans líf hafði á endanum leitt til glæpsins. Patterson sagði í framburði sínum fyrir dómstólnum að hann óskaði að hann gæti „tekið tilbaka það sem ég gerði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert