Banvænn vandi sem engin lausn er við

Eitur dregið úr Höggormi.
Eitur dregið úr Höggormi. AFP

Á hverju ári látast á bilinu 81.000 til 138.000 manns og um 400.000 manns veikjast varanlega vegna höggormsbita. Víðtækur skortur á móteitri við höggormsbitum um allan heim hefur aukið verulega á vandamálið sem sérfræðingar segja að eigi ekki að vera til staðar.

Höggormsbit verða yfir 200 manns að bana dag hvern, en taílenski slökkviliðsmaðurinn Pinyo Pookpinyo var einn af þeim heppnum. Þegar hann var bitinn í þumalfingurinn af risagleraugnaslöngu var hann aðeins 15 mínútur frá spítala þar sem honum var samstundið gefið sermisbóluefni áður en eitrið úr slöngunni náði að ráðast á taugakerfi hans.

Eitur dregið úr höggormi.
Eitur dregið úr höggormi. AFP

„Læknirinn trúði fyrst um sinn ekki að ég hafði verið bitinn af kóngkóbra. Ég varð að segja honum að ég væri leiðbeinandi og fræddi fólk um snáka. Ég er afar flinkur í að koma auga á tegundir,“ sagði Pinyo í samtali við CNN.

„Þetta hafði áhrif á mig í um tvo mánuði. Ég þurfti að fara aftur á spítalann í tvær aðgerðir til að fjarlægja líkamsvef.“

Átta ára stúlka í Kenýa sem missti alla hreyfigetu í …
Átta ára stúlka í Kenýa sem missti alla hreyfigetu í vinstri hendi eftir höggormsbit. AFP

Þó að Pinyo hafi sloppið vel búa fáir jafn skammt frá spítala og flestir þekkja lítið til höggormstegunda. Við þær aðstæður getur verið banvænt að skrika fótur eða vera á röngum stað á röngum tíma. Hættan er mest í Asíu og Afríku á svæðum þar sem lítið er um heilbrigðisþjónustu og langt á milli spítala.

Vilja finna skilvirkar meðferðir 

Í samtali við CNN sagði prófessorinn Mike Turner að höggormsbit séu afar vantalin. „Höggormsbit eru, eða ættu að vera, viðráðanlegt ástand. Með aðgangi að rétta móteitrinu eru miklar líkur á bata. Þó að fólk komi alltaf til með að vera bitið af höggormum, er engin ástæða að svo margir deyi.“

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun í vikunni gefa út nýja áætlun til að draga úr vandamálinu sem er lýst sem stóru og leyndu neyðarástandi. Stofnunin stefnir á að fækka dauðsföllum vegna höggormsbita um helming fyrir árið 2030.

Eitt stærsta verkefnið framundan samkvæmt vísindamönnum er að finna nýjar leiðir til að framleiða móteitur sem þurfa að vera öruggari, ódýrari og skilvirkari.

Afrískur eitursnákur.
Afrískur eitursnákur. AFP

Sú aðferð sem notuð er í dag við framleiðslu mótefnis hefur lítið sem ekkert breyst frá 19. öld; eitrið er dregið úr höggormi og því gefið hesti eða annarskonar dýri í litlum skömmtum til að kalla fram ónæmisviðbrögð. Þá er tekið blóð af dýrinu sem er hreinsað til að útvega mótefnið gegn eitri höggormsins.

Samkvæmt CNN er magnið af mótefni sem til er í heiminum í dag minna en helmingurinn af því sem þyrfti og einungis hafa verið þróuð mótefni fyrir um 60% af tegundum höggorma. Vandamálið er gríðarlegt í Afríku þar sem um 90% af mótefni sem til er, er áhrifalaust.

Ásamt því að þróa nýjar leiðir til framleiðslu mótefnis hyggst Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin styrkja heilbrigðisþjónustu á efnaminni svæðum, bjóða upp á fyrirbyggjandi fræðslu, tryggja að fólk þekki höggorma á hverjum stað fyrir sig og hvetja til einfaldra hegðunarbreytinga eins og notkun skófatnaðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert