„Ég valdi lífið“

Amanda Eller ásamt sjálfboðaliðum sem að fundu hana í gljúfri …
Amanda Eller ásamt sjálfboðaliðum sem að fundu hana í gljúfri á eyjunni Maui í gær. AFP

„Síðustu 17 dagar hafa verið erfiðustu dagar lífs míns,“ segir Amanda Eller, göngukonan sem lifði af ótrúlega tveggja vikna þrekraun á eyjunni Maui á Havaí. Eller týndist og slasaðist á göngu sinni um eyjuna, en hún féll sex metra, fótbrotnaði og reif liðbönd í hné, auk þess sem hún var orðin illa leikin vegna sólbruna og sára.

Henni var bjargað úr gljúfri eftir mikla leit sjálfboðaliða í gær, en hún hélt í sér lífinu í rúmar tvær vikur með því að borða ber og drekka vatn. Eller er 35 ára gömul og starfar sem jógakennari á Havaí. Hún segir að um „andlega vegferð“ hafi verið að ræða.

 „Þetta snerist um líf og dauða og ég varð að velja, ég valdi lífið. Ég ætlaði ekki að taka auðveldu leiðina út, þrátt fyrir að það hafi útheimt frekari þjáningar og sársauka fyrir mig,“ sagði Eller, í myndskeiði sem hún sendi fjölmiðlum úr sjúkrarúmi sínu.

Hún bætir því við að hún geti ekki lýst því hversu þakklát öllum þeim sem hjálpuðu henni og báðu fyrir henni. Þá þakkar hún sérsaklega fyrir framtak þeirra sem settu upp fjáröflunarsíðu á netinu til þess að hjálpa henni að borga fyrir þyrluna sem send var til þess að bjarga henni úr gljúfrinu.

„Ég vissi ekkert hvernig ég átti að fara að því að borga fyrir það,“ sagði Eller.mbl.is