Liðkað fyrir hjónaskilnuðum á Írlandi

Írar samþykktu á föstudag með yfirgnæfandi meirihluta að stytta þann …
Írar samþykktu á föstudag með yfirgnæfandi meirihluta að stytta þann tíma sem hjón þurfa að vera skilin að borði og sæng áður en þau fá lögskilnað. AFP

Mikill meirihluti Íra greiddi á föstudag atkvæði með því að slaka verulega á löggjöf sem varðar hjónaskilnaði, en núgildandi löggjöf þar að lútandi er ein sú íhaldssamasta í Evrópu og hafa hjón þurft að hafa verið skilin að borði og sæng í að minnsta kosti fjögur ár af síðustu fimm árum til þess að geta slitið hjónabandi sínu.

Um 82% kjósenda greiddu atkvæði með því að stytta þennan tíma, í þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið, sem fór fram samhliða Evrópuþingskosningunum á föstudaginn.

Þeir sem börðust fyrir því að hjúskaparlögunum yrði breytt lögðu áherslu á það í málflutningi sínum að þessi skylda um að fólk þyrfti að búa sitt í hvoru lagi í fjögur ár fyrir lögskilnað, setti of miklar tilfinningalegar og fjárhagslegar byrðar á fólk, sér í lagi þessi misserin, er fasteigna- og leiguverð í Írlandi er í hæstu hæðum.

Lægsta skilnaðartíðnin innan ESB

Írska ríkisstjórnin hefur gefið í skyn að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar muni ný löggjöf verða kynnt, sem styttir þann tíma sem fólk þarf að vera skilið að borði og sæng í tvö ár af síðustu þremur fyrir lögskilnað.

Írsku hjúskaparlögin eru sem áður segir ein sú stífustu í Evrópu og eru í frétt AFP um málið sögð helsta ástæðan fyrir því að skilnaðartíðni á Írland er lægri en í nokkru öðru aðildarríki Evrópusambandsins.

Kaþólskar siðvenjur hafa verið smám saman að víkja úr írskri löggjöf á undanförnum árum og er þess skemmst að minnast að í fyrra var stjórnarskrárbundið bann við fóstureyðingum afnumið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, við mikinn fögnuð margra.

Írar kusu til Evrópuþings, sveitarstjórna og um skilnaðarlöggjöfina á föstudag.
Írar kusu til Evrópuþings, sveitarstjórna og um skilnaðarlöggjöfina á föstudag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert