Ofbeldið gegn gyðingum „skammarlegt“

Gyðingar í Berlín minnast þess að 80 ár voru liðin …
Gyðingar í Berlín minnast þess að 80 ár voru liðin frá Kristalnótt nasista á síðasta ári. AFP

Yfirvöld í Þýskalandi hafa hvatt gyðinga þar í landi til að forðast að bera kollhúfur á meðal almennings á ákveðnum svæðum í landinu. Uppgangur hægri-öfga­manna og nýnas­ista í Þýskalandi hefur verið mikill und­an­far­in miss­eri og er farinn að valda mörgum áhyggjum.

Greinileg fjölgun var á and-semískum afbrotum á síðasta ári. Opinberar tölur sýna að alls voru 1.646 hatursglæpum beint gegn gyðingum árið 2018 sem er 10% hærri tala en skrásett var árið áður.

Líkamsárásum gegn gyðingum í Þýskalandi fjölgaði einnig yfir sama tímabil, en fjöldi ofbeldisfullra árása hækkaði úr 37 árið 2017 í 62 árið 2018.

Eftir því sem fram kemur á vef BBC sagði dómsmálaráðherra Þýskalands, Katarina Barley, að þessi aukni fjöldi and-semískra glæpa væri „skammarlegur fyrir land okkar.“

Stuðning­ur við þjóðern­is­sinnaða flokka hef­ur vaxið í Þýskalandi und­an­far­in ár og nú er svo komið að hægri­flokk­ur­inn Ann­ar valkost­ur fyr­ir Þýska­land (AfD) er orðinn stærsti stjórn­ar­and­stöðuflokk­ur­inn á þýska þinginu. Flokkurinn leggst gegn innflytjendastefnu þýskra yfirvalda en segist ekki and-semískur.

Samt sem áður hafa fjöldi ummæla flokksmanna, meðal annars ummæli um Helförina, kallað fram gagnrýni frá gyðingum í Þýskalandi og stjórnmálamönnum annarra flokka.

Fjöldi gyðinga hafa varað við því að auknar vinsældir öfga-hægriflokka hafi alið á gyðingaandúð og hatri á öðrum minnihlutahópum í Evrópu.

mbl.is