„Risaskjálfti“ í Perú

Skjálftinn var 8,0 að stærð, samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnunninni USGS.
Skjálftinn var 8,0 að stærð, samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnunninni USGS. Skjáskot af vef USGS

Jarðskjálfti, 8,0 að stærð, reið yfir norðurhluta Perú í morgun. Skjálftans varð vart í skjálftamælingum Veðurstofu Íslands í morgun.

„Þetta er risaskjálfti í Perú, hann er tæplega átta að stærð miðað við fyrstu upplýsingar,“ sagði Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, er blaðamaður hafði samband til þess að forvitnast um mælingu sem kom fram á vef stofnunarinnar í morgun og sýndi skjálfta, 3,6 að stærð, suðvestan við Akureyri.

„Sjálfvirka kerfið okkar ruglast aðeins þegar það koma bylgjur svona langt utan úr heimi,“ segir Einar.

Samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnuninni USGS átti skjálftinn upptök sín um 75 kílómetra suðaustan við þorpið Lagunas í Perú, 98 kílómetrum frá bænum Yurimaguas. Upptök skjálftans voru á 114 kílómetra dýpi. Hann reið yfir kl. 2:41 að staðartíma, eða kl. 7:41 að íslenskum tíma.

Skjálftinn mun hafa fundist vel í Lima, höfuðborg Perú, og víðar um landið. Myndskeið sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna að skjálftinn stóð yfir í langan tíma, eða mínútu hið minnsta.

Engin tíðindi hafa borist af skemmdum eða mannfalli vegna skjálftans.

mbl.is