Þeir grétu, ég grét

Úr nýju þáttunum, When They See Us.
Úr nýju þáttunum, When They See Us. Netflix

„Ég hef upplifað margt fallegt á ferli mínum en það jafnast ekkert á við það að sitja fyrir aftan þessa fimm menn í litlum sýningarsal og fylgjast með þeim horfa á söguna sem tók okkur fimm ár að segja. Þeir grétu, ég grét. Þeir fögnuðu, þeir héldust í hendur.“

Þannig komst kvikmyndaleikstjórinn Ava DuVerney að orði í sjónvarpsþættinum CBS This Morning á dögunum en ný mínísería eftir hana, When They See Us, kemur í heilu lagi inn á efnisveituna Netflix 31. maí næstkomandi.

Þættirnir eru byggðir á sönnum atburðum en árið 1989 voru fimm táningar, Antron McCray, Kevin Richardson, Yusef Salaam, Raymond Santana og Korey Wise, teknir höndum og ákærðir fyrir að hafa ráðist á og nauðgað kvenkyns skokkara í Central Park í New York. Allir eru þeir svartir, nema einn sem er af rómönsku bergi brotinn, og urðu fljótt þekktir sem „fimmmenningarnir úr Central Park“.

Geirfinnslykt af málinu

Þrátt fyrir skort á áþreifanlegum sönnunargögnum voru þeir allir fundnir sekir fyrir dómi árið 1990 eftir að hafa gengist við glæpnum við yfirheyrslur. Allir voru þeir látnir lausir tólf árum síðar eftir að annar maður játaði á sig glæpinn og DNA-rannsókn staðfesti að fimmmenningarnir áttu engan hlut að máli. Þeir héldu því alla tíð fram að lögregla hefði þvingað þá til falskra játninga. Geirfinnslykt af þessu öllu saman, hugsar eflaust einhver.
„Þeir sáu sjálfa sig og þeir sáu hina,“ hélt DuVernay áfram að lýsa upplifun mannanna þegar þeir horfðu á þættina, sem eru fjórir talsins. „Þeir höfðu verið svo uppteknir af sinni eigin sögu og reynslu að það var mikil opinberun fyrir þá að skyggnast inn í líf hinna fjögurra og sjá hvað þeir og fjölskyldur þeirra gengu í gegnum.“

Auk þess að leikstýra kom DuVernay að handritsgerð og segir ekki hafa komið til greina að nota frasann „fimmmenningarnir úr Central Park“ í titli þáttanna. „Frá mínum bæjardyrum séð var það áskorun að kafa undir þennan merkimiða sem lögreglan, saksóknari og fjölmiðlar gáfu þeim. Ég vildi miklu frekar draga fram mennskuna í þessum drengjum og biðja áhorfendur um að horfa framhjá merkimiðanum og sjá þá eins og þeir eru.“

Nánar er fjallað um When They See Us í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Ava DuVernay á rauða dreglinum.
Ava DuVernay á rauða dreglinum. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »