„Við búum ekki í frum­skóg­in­um“

AFP

Rúmlega eitt þúsund manns gengu um götur höfuðborgar Haítí, Port-au-Prince, í dag til þess að mótmæla kynbundnu ofbeldi í landinu í kjölfar þess að tveimur ungum konum var nauðgað af hópi karlmanna fyrir helgi.

Fram kemur í frétt AFP að fólkið hafi klæðst hvítu og gengið frá miðbæ borgarinnar að háskólanum þar sem önnur unga konan stundaði nám. Á leiðinni var komið við á staðnum þar sem ofbeldinu var beitt.

Haft er eftir femínistanum og aðgerðasinnanum Pascale Solages að kynbundið ofbeldi sé beitt til þess að kúga konur í verkamannahverfum og í háskólum í landinu.

Töldu konurnar sjálfar bera ábyrgð á ofbeldinu

Takmarkaðar rannsóknir eru til um kynbundið ofbeldi á Haítí en heilbrigðisráðuneyti landsins sendi frá sér skýslu 2017 þar sem kemur fram að ein af hverjum átta konum í landinu verði fyrir slíku ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ennfremur segir í fréttinni að feðraveldi sé ríkjandi á Haítí og í kjölfar árásarinnar í vikunni hafi ýmsir álitsgjafar þannig velt því fyrir sér hvort konurnar tvær hafi borið ábyrgð á ofbeldinu með klæðnaði sínum.

„Nákvæmlega ekkert getur réttlætt nauðgun. Stúlkur eiga að geta gengið frjálsar úti hvenær sem þær vilja og klætt sig eins og þær vilja,“ er haft eftir Wilkenson Saint-Fleur, námskonu sem tók þátt í mótmælunum.

„Við búum ekki í frumskóginum. Yfirvöld verða núna að axla ábyrgð sína gagnvart almenningi sem þau hafa heitið því að vernda, annars mun fólkið taka réttlætið í sínar hendur og stjórnleysi ríkir.“

AFP
mbl.is