Áfrýja væntanlega dauðadómi

Frá Mosul árið 2016.
Frá Mosul árið 2016. AFP

Franska ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að írösk stjórnvöld taki þrjá Frakka af lífi. Mennirnir voru dæmdir til dauða fyrir að berjast með vígasamtökunum Ríki íslams í gær.

Í tilkynningu frá franska utanríkisráðuneytinu er franska ríkið alfarið á móti dauðarefsingum og skiptir þar engu hvar slíkir dómar falla. Ræðismaður Frakka í Írak hefur aðstoðað þremenningana og séð um að þeir hafi fengið lögfræðiaðstoð en þeir þurfa að áfrýja dómnum innan 30 daga. 

Frönsk yfirvöld hafa ítrekað sagt að franskir ríkisborgarar sem eru handteknir í Írak og Sýrlandi verði að sætta sig við að réttað sé yfir þeim í viðkomandi ríkjum þrátt fyrir hættuna á að þeir verði dæmdir til dauða. 

Frakkarnir, Kevin Gonot, Leonard Lopez og Salim Machou, voru handteknir í Sýrlandi og fluttir til Íraks til þess að mæta fyrir dóm. Þeir eru meðal 13 Frakka sem voru handteknir í austurhluta Sýrlands í febrúar. Þeir voru allir framseldir til Írak þar sem þeir eru sóttir til saka fyrir að berjast með vígasamtökunum. 

Þúsundir vígamanna eru í haldi í Írak og þegar hafa yfir 500 verið dæmdir frá því í ársbyrjun 2018. Margir þeirra hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi eða til dauða en enginn útlendingur hefur enn verið tekinn af lífi.

Ein þeirra sem var dæmd í gær var sænsk kona en hún var dæmd í haust fyrir að hafa komið inn í landið með ólöglegum hætti. Í október var hún sýknuð af ákæru um að vera félagið í Ríki íslams vegna skorts á sönnunum en nú hefur þeim dómi verið snúið við og á hún yfir höfði sér fimm ára fangelsisdóm. Þetta kemur fram í fréttum sænskra fjölmiðla. Sænska utanríkisráðuneytið hefur staðfest fréttirnar. 

Konan, sem er 29 ára gömul, hafði áður sagt við yfirheyrslur að hún hafi komið til Íraks með eiginmanni sínum og þremur börnum þeirra en börnin eru nú 3, 4 og 5 ára gömul. Að hennar sögn lést eiginmaður hennar árið 2016 í loftárásum á Tal Afar, skammt frá Mosul. Hún heldur því fram að hún hafi aldrei sjálf stutt vígasamtökin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert