Norsk sjónvarpsstöð kærð vegna andasæringa

Anders Torp, siðrænn húmanisti í Ósló, hefur kært Visjon Norge …
Anders Torp, siðrænn húmanisti í Ósló, hefur kært Visjon Norge fyrir að sýna predikun þar sem Rich Vera hvetur til þess að djöflar séu særðir úr börnum. Segist hann sjálfur eiga um sárt að binda í þeim efnum þar sem hann hafi sætt særingu í söfnuði föður síns, Jan-Aage Torp, er hann var 13 ára gamall. Ljósmynd/Wikipedia.org/Edmond Yang

„Getur barn verið haldið heilögum anda? Að sjálfsögðu. Getur barn verið haldið öðrum anda sem ræðst á það? Að sjálfsögðu! Slíkt gerðist á dögum Jesú.“ Þetta voru orð bandaríska sjónvarpspredikarans Rich Vera í sjónvarpsmessu sem hann hélt af innlifun frammi fyrir áheyrendum sínum og norska trúarsjónvarpið Visjon Norge sýndi í dagskrá sinni 16. maí.

Þuldi Vera kenningu sína í 25 mínútur samfleytt og ræddi þar meðal annars andasæringar, andsetin börn og nauðsyn þess að særa óværuna úr þeim með særingarathöfnum.

Fyrir útsendingu þessa sjónvarpsefnis hefur Anders Torp, siðrænn húmanisti í Ósló, nú kært Visjon Norge til lögreglu, en hann segist sjálfur hafa sætt andasæringu 13 ára gamall og hefur hans eigin fyrrverandi söfnuður, Oslokirken, reyndar legið undir grun fyrir að hvetja til særinga. 

Reyndi að fá Ólympíuleikum aflýst

Torp þessi er sonur Jan-Aage Torp sem hefur rekið fjölda kirkna í og umhverfis Ósló, þar á meðal Sigurkirkjuna í Lillestrøm sem lögð var niður árið 2000, en Torp eldri var handtekinn sjö sinnum fyrir að boða til mótmæla á fóstureyðingarstofum í Ósló auk þess sem hann rak árabilið 1996 – 2000 sérstakt átak innan kirkju sinnar undir nafninu Til heildar (n. Til helhet) sem gekk út á að snúa samkynhneigðum af þeirri leið sem Torp kallaði kynvillu og guðlast.

Árið 2004 gerði Torp, í félagsskap ellefu trúbræðra sinna, tilraun til að fá Ólympíuleikunum í Aþenu aflýst þar sem hann hefði fengið sýn um að þar yrði blóðbað sem refsa skyldi aðstandendum leikanna fyrir að nota þemu úr grískri goðafræði sem væru ekkert annað en „áhrif djöfulsins“ (n. demonisk påvirkning). Þegar fátt gerðist á leikunum annað en íþróttaviðburðir hélt Torp eldri því fram í viðtölum að bænir hans einar hefðu komið í veg fyrir dauða þúsunda.

Þeim feðgum, Jan-Aage og Anders, sem nú kærir Visjon Norge, sinnaðist mjög fyrir rúmum áratug og kom sonurinn fram í viðtali við norska dagblaðið VG þar sem hann sakaði söfnuð föður síns um að særa djöfla úr sóknarbörnum sínum auk þess að krefja þau um stóran hluta tekna þeirra og gera sér far um að notfæra sér veikleika þeirra sem ættu um sárt að binda til að afla söfnuðinum tekna. Tókust feðgarnir meðal annars á um sannfæringu sína í morgunspjallþætti TV2, God morgen Norge, 15. mars 2016.

Sjónvarpsstjóri neitar að tjá sig

„Rich Vera ver og hvetur til þess á Visjon Norge að andar séu særðir úr börnum,“ segir Anders Torp í samtali við norska vefmiðilinn Dagen sem krefst áskriftar en aðrir norskir miðlar greina frá viðtalinu. „Þar sem hann hvetur til þessa með rökum úr biblíunni er hætt við því að kristnir bókstafstrúarmenn álíti það skyldu sína að framkvæma þetta,“ segir Torp.

Særingamessa Vera hefur nú verið fjarlægð úr sarpi Visjon Norge og neitar sjónvarpsstjórinn Jan Hanvold, sem reyndar er einnig sjónvarpspredikari á eigin stöð, að tjá sig nokkuð um málið við norska fjölmiðla og geta því prestar þeir, sem aðild eiga að málinu, líklega fátt annað en beðið þar til lögregla tekur kæru Anders Torp fyrir.

VG

Dagsavisen

Fri Tanke

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert