Réttað í 22 ára gömlu morðmáli

Mynd af Sophie Toscan du Plantier en réttarhöldin yfir meintum …
Mynd af Sophie Toscan du Plantier en réttarhöldin yfir meintum morðingja hennar hefjast í París í dag. AFP

Fyrir 22 árum var Sophie Toscan du Plantier barin til bana á sveitasetri fjölskyldunnar í Cork á Írlandi en í dag hefjast réttarhöld yfir meintum morðingja í París. Hann er hins vegar ekki viðstaddur þar sem írsk yfirvöld hafa neitað að framselja hann.

Ian Bailey, sem er 62 ára gamall fyrrverandi sjálfstætt starfandi blaðamaður, neitar að hafa  drepið Sophie Toscan du Plantier á Þorláksmessu árið 1996 og mun ekki  vera viðstaddur réttarhöldin né heldur verjendur hans. 

Sophie Toscan du Plantier, sem var 39 ára gömul og eiginkona franska kvikmyndaframleiðandans Daniel Toscan du Plantier, fannst látin á heimili þeirra í Cork. Miðað við áverka á höndum hennar var greinilegt að hún hafði reynt að verjast árásármanninum. Skammt frá líki hennar fannst stór steinn og blóðugur múrsteinn.

Hús Daniel og Sophie Toscan du Plantier skammt frá þorpinu …
Hús Daniel og Sophie Toscan du Plantier skammt frá þorpinu Schull í Cork á Írlandi. AFP

Bailey, sem er breskur, bjó þar skammt frá og var yfirheyrður af írsku lögreglunni í tvígang en ekki ákærður þar. Engin lífsýni úr honum fundust á vettvangi en áverkar á honum, meðal annars rispur á handleggjum, urðu til þess að hann lá undir grun um morðið. Hann hefur eins og áður sagði alltaf neitað sök og að rekja mætti áverkana til baráttu við að koma jólatrénu á sinn stað og skera kalkúninn á jólunum.  

Ian Bailey starfar sem pizzabakari í dag á Írlandi.
Ian Bailey starfar sem pizzabakari í dag á Írlandi. AFP

Franska lögreglan gaf út handtökuskipun á hendur Baily árið 2010 og 2016 en lögreglan í Dublin hafnaði þeim báðum og vísaði í skort á framsalssamningum á milli ríkjanna tveggja. Ef Bailey verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisdóm og Frakkar gætu farið fram á framsal að nýju. Erfitt gæti verið fyrir írsk yfirvöld að neita slíkri beiðni að sögn lögmanns fjölskyldunnar. Eiginmaður Sophie, Daniel Toscan du Plantier, fyrrverandi forstjóri Gaumont-kvikmyndaversins, lést árið 2003.

Von er á því að dómur falli á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert