Sýna samstöðu með gyðingum

Kollhúfa gyðings.
Kollhúfa gyðings. AFP

Þýska dagblaðið Bild birti í dag mynd af kollhúfu gyðinga (kippah) á forsíðu blaðsins en það er gert til varnar gyðingum vegna aukinna ofsókna í garð gyðinga í Þýskalandi. Gyðingar hafa verið varaðir við hættu samfara því að bera kollhúfuna í Þýskalandi.

Um helgina sagði Felix Klein, sem fer með mál tengd gyðingahatri í ríkisstjórn Þýskalands, að hann geti ekki lengr ráðlagt gyðingum að bera kollhúfuna hvar sem er í Þýskalandi. Forseti Ísraels, Reuven Rivlin, sagði að sér væri mjög brugðið við að heyra þetta og ummælin sýni stigvaxandi andúð í garð gyðinga og að þeir væru ekki lengur óhultir í Þýskalandi.

Bild, sem er mest lesna dagblað Þýskalands, hvetur lesendur blaðsins til samstöðu með nágrönnum sem eru gyðingar og hvatti þá til þess að bera sína eigin útgáfu af kollhúfu, bera Davíðsstjörnuna til þess að sýna gyðingum í landinu samstöðu.

Í virðingaskyni við Guð hylja gyðingar höfuð sitt þegar þeir biðja, annaðhvort með svörtum höttum eða svokölluðum kollhúfum sem kallast kippah á hebresku. 

Aðalritstjóri Bild, Julian Reichelt, segir að eina svarið við beiðni um að gyðingar sleppi því að bera kollhúfu sé nei. Annað sé ekki í boði sjö áratugum eftir helförina. Ef svo sé komið fyrir Þýskaland að gyðingum sé ekki óhætt í landinu þá sé ljóst að þjóðinni hafi mistekist. Kollhúfan sé hluti af Þýskalandi. 

Frétt Bild

Þjóðverjar hafa, líkt og flest vestræn ríki, upplifað aukið gyðingahatur sem og annan rasistaáróður, hatursorðræðu og ofbeldi, undanfarin ár á sama tíma og pólitískt landslag hefur orðið grófara og meiri öfgar ríkjandi. Glæpum tengdum gyðingahatri fjölgaði um 20% í Þýskalandi í fyrra og samkvæmt tölulegum upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu eru það öfgaþjóðernissinnar sem bera ábyrgð á níu af hverjum tíu slíkum árásum. 

Frétt France24

Eitt af því sem nefnt er í þessu samhengi er að öfgaflokkur eins og Annar kostur fyrir Þýskaland (AfD) hafi fengið góða kosningu í síðustu þingkosningum. 

Frétt Reuters

Fjölgun glæpa tengdum gyðingahatri er mikið áhyggjuefni fyrir okkur öll sem erum búsett í Þýskalandi, segir Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag. Það er markmið ríkisins að tryggja að allir geti ferðast um með kollhúfu hvar sem er, hvenær sem er. 

Eitt af því sem hefur verið nefnt er fjölgun múslíma í Þýskalandi og er í frétt AFP tekið fram að í fyrra hafi 19 ára Sýrlendingur verið dæmdur fyrir árás eftir að hafa slegið í átt að ísraelskum manni sem var með kollhúfi með belti sínu og kallað gyðingur á arabísku að honum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina