Ár heims fullar af sýklalyfjum

Dóná í Austurríki. Áin er önnur stærsta á Evrópu og …
Dóná í Austurríki. Áin er önnur stærsta á Evrópu og sú mengaðasta. Sjö tegundir sýklalyfja fundust í ánni við sýnatöku. AFP

Sýklalyf mælast í hættulegu magni í hundruðum áa um heim allan, m.a. mörgum af þekktustu ám heims eins og Thames og Tígris. Rannsókn sem var kynnt í gær tók til 72 landa og er sú umfangsmesta sem unnin hefur verið um málið til þessa. Greindust sýklalyf á tveimur þriðju allra sýnastaða.

Guardian fjallar um málið og segir slíka sýklalyfjamengun vera eina af helstu ástæðum þess að bakteríur ná að þróa með sér ónæmi gegn sýklalyfjum, sem fyrir vikið reynast ekki sú lífsbjörg sem þeim er ætlað að vera.

„Mikið af þessum ónæmu genum sem við sjáum í sýklum í mönnum eiga uppruna sinn í bakteríum úr umhverfinu,“ hefur Guardian eftir prófessor William Gaze, örveruvistfræðingi við Exeter-háskóla. Aukning sýklalyfjaónæmra baktería flokkast sem neyðarástand í heilbrigðismálum á heimsvísu og sögðu Sameinuðu þjóðirnar í síðasta mánuði að það kunni að hafa kostað 10 milljónir manna lífið árið 2050.

Alls voru gerðar prófanir á 711 stöðum í 72 löndum …
Alls voru gerðar prófanir á 711 stöðum í 72 löndum og fundust sýklalyf á 65% þeirra. Á 111 stöðum mældist magn sýklalyfja yfir öruggum mörkum og í verstu tilfellum var það 300-föld öryggismörk. AFP

Ógnar meðferð við alvarlegum sýkingum

Sýklalyfin komast út í ár og jarðveg í gegnum úrgang manna og dýra, sem og með leka frá frárennsliskerfum hreinsunarstöðva og lyfjafyrirtækja. „Þetta vekur ótta og er niðurdrepandi. Verið getur að sýklalyfjamagn í stórum hlutum náttúrunnar sé orðið það hátt að það veiti viðnám [gegn sýklalyfjum],” segir Alistair Boxall, umhverfisfræðingur við York-háskóla og einn höfundur skýrslunnar.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á ráðstefnu í Helsinki í gær og kemur þar fram að nokkrar af þekktustu ám heims, m.a. Thames-áin í Bretlandi, eru mengaðar af sýklalyfjum í því magni að það telst ógna meðferð við alvarlegum sýkingum. Í fjölda tilfelli mældist magnið það mikið að það taldist hættulegt, sem felur í sér að sýklalyfjaónæmið teljist líklegt til að dreifast og þróast frekar.

Sýni sem tekin voru úr Dóná í Austurríki innihéldu sjö tegundir sýklalyfja, m.a. clarithromycin sem er notað til að meðhöndla öndunarfærasýkingar á borð við lungnabólgu og bronkítis. Mældist magn sýklalyfsins í ánni ferfalt yfir öryggismörkum.

Dóná er önnur stærsta á Evrópu og sú mengaðasta, en 80% sýnastaða árinnar í Evrópu töldust yfir öryggismörkum.

Thames-áin í Lundúnum. Í Thames og þeim þverám sem í …
Thames-áin í Lundúnum. Í Thames og þeim þverám sem í hana renna greindust fimm tegundir sýklalyfja og var magnið yfir öryggismörkum á fjórum stöðum. AFP

300-föld mörk

Í Thames, sem Guardian segir jafnan teljast með hreinni ám Evrópu, og þeim ám sem í hana renna mældust fimm gerðir sýklalyfja. Mældist magnið yfir öryggismörkum á fjórum stöðum, þar á meðal var lyfið Ciprofloxacin sem er notað til að meðhöndla húð- og þvagfæravandamál yfir öryggismörkum á þremur stöðum.

Jafnvel þær ár þar sem sýklalyf mældust í litlum mæli teljast ógn að sögn Gaze. „Jafnvel það litla magn sem við sjáum í Evrópu getur leitt til þróunar ónæmis og aukið líkur á að ónæm gen rati yfir í sýkla sem smita menn,“ sagði hann.

Alls voru gerðar prófanir á 711 stöðum í 72 löndum og fundust sýklalyf á 65% þeirra. Á 111 stöðum mældist magn sýklalyfja yfir öruggum mörkum og í verstu tilfellum var það 300-falt yfir öryggismörkum.

Sorp losað beint út í ána

Guardian segir ástandið almennt hafa verið verst í efnaminni ríkjum og komu ár í Afríku- og Asíuríkjum þannig verst út. Allra verst var ástandið í Bangladess þar sem lyfið metronidazole, sem er notað gegn sýkingu í kynfærum kvenna, mældist 300 sinnum yfir öryggismörkum. Sýnastaðurinn var í nágrenni frárennsliskerfis frá hreinsunarstöð, en í efnaminni ríkjum skortir oft hreinsitæknina til að fjarlægja lyfin.

Þá var losun á sorpi einnig óviðunandi í einhverjum tilfellum, þar sem það var losað beint út í ár. Urðu vísindamenn vitni að slíku tilviki í Kenýa þar sem magn sýklalyfja mældist 100-föld öryggismörk. Segir Boxall lyfjamagnið í sumum ánna í Kenýa svo hátt að enginn fiskur lifði þar. „Það var algjört hrun,“ sagði hann.

Skýrsla Evrópustofnunnar um lyf og fíknisjúkdóma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert