Gamli Spánarkonungur dregur sig í hlé

Mynd tekin um páskana 2018. Í júní hverfur Jóhann Karl …
Mynd tekin um páskana 2018. Í júní hverfur Jóhann Karl endanlega á brott af opinberum vettvangi. AFP

„Ég held að tími sé til kominn að ég fletti á nýja blaðsíðu í lífi mínu og dragi mig endanlega út úr opinberu lífi,“ stóð í bréfi sem Jóhann Karl I. sendi syni sínum Filippusi sjötta Spánarkonungi á dögunum.

Jóhann Karl vill draga sig í hlé frá opinberum vettvangi 2. júní næstkomandi. Sömuleiðis vill hann láta algerlega af störfum fyrir spænsku krúnuna. Það eru fimm ár liðin síðan sonur hans tók við embætti, fljótlega eftir að upp komst um meiri háttar spillingarfléttu sem Jóhann Karl var sagður viðriðinn. Hann hefur verið lítt sjáanlegur síðustu ár.

Hann hefur verið viðstaddur verðlaunaafhendingar ýmsar og önnur minni háttar verkefni síðustu fimm ár, meðal annars fjörutíu ára afmæli spænsku stjórnarskránnar og sömuleiðis áttatíu ára afmælið sitt.

Jóhann Karl tók við embætti þegar Francisco Franco lést, sem var einræðisherra yfir Spáni 1936-1975. Franco tók ákvörðunina um að Jóhann Karl tæki við, þannig að fyrst um sinn mæltist hann að vonum ekki vel fyrir meðal andstæðinga Franco. Smám saman ávann hann sér þó traust þjóðarinnar með því að hafa í heiðri lýðræðisleg gildi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert