„Mér brá mjög mikið“

Eldur kom upp í strætisvagni í Västra hamnen-hverfinu í Malmö skömmu eftir hádegi, eða um klukkan eitt að staðartíma. Auður Elín Sigurðardóttir er búsett í hverfinu og var á gangi með dóttur sín í barnavagni þegar hún tók eftir strætisvagni sem var kyrrstæður á óvenjulegum stað.

„Þetta var mjög sjokkerandi. Fyrst fannst mér mjög undarlegt að sjá strætóinn stoppa þarna á þessum stað og svo sá ég allt í einu að það var smá eldur í enda vagnsins,“ segir Auður í samtali við mbl.is.

Stuttu síðar sá hún ökumann vagnsins hlaupa út, því næst gaus upp mikill reykur. „Eldurinn breiddist hratt út, það var alveg rosalegt að sjá.“ Auður kom barnavagninum í öruggt skjól en var að taka myndskeið af brunanum þegar stór sprenging varð aftast í vagninum. „Mér brá mjög mikið. Maður býst ekki við svona hlutum, ég hélt að þetta væri bara smá eldur og svo yrði þetta bara búið.“ Myndskeið af sprengingunni má sjá hér að ofan. 

Ökumaðurinn var einn í vagninum og mikil mildi þykir að ekki fór verr. Vagninn er gjörónýtur. Í tilkynningu frá lögreglu sem sænskir miðlar vísa í segir að aldrei hafi verið hætta á að eldurinn myndi breiðast frekar út. Eldsupptök eru ekki kunn, en vagninn er gasknúinn sem gæti verið vísbending um eldsupptök.

Eldur kom upp aftast í vagninum og sprengingar fylgdu í …
Eldur kom upp aftast í vagninum og sprengingar fylgdu í kjölfarið. Ljósmynd/Auður Elín Sigurðardóttir

Fegin að ekki fór verr

Götunum í kring var lokað um tíma og hélt Auður ferð sinni áfram og sótti son sinn í leikskólann. Þar þurfti hún að hinkra í um hálftíma þar sem fólk var beðið um að halda sig inni á meðan mesti slökkvistarf stóð yfir.

„Ég er bara fegin að ekki fór verr. Ég er fegin að ég var ekki með son minn á þessum tíma,“ segir Auður, sem nýtir sér strætósamgöngur í borginni og hefði vel getað verið í umræddum strætó. „Já, hugsanlega, þetta var í raun mikil heppni,“ segir hún og bætir við að litla hverfissamfélagið sé í miklu sjokki.

Ökumaðurinn var einn í vagninum þegar eldurinn kom upp.
Ökumaðurinn var einn í vagninum þegar eldurinn kom upp. Ljósmynd/Auður Elín Sigurðardóttir
Mikinn reyk lagði yfir hverfið og var fólk beðið um …
Mikinn reyk lagði yfir hverfið og var fólk beðið um að halda sig inni í tæpan klukkutíma. Ljósmynd/Auður Elín Sigurðardóttir
Ökumaður vagnsins var einn í vagninum og slapp hann ómeiddur.
Ökumaður vagnsins var einn í vagninum og slapp hann ómeiddur. Ljósmynd/Auður Elín Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert