Nauðvörn Lars Løkke á síðustu stundu?

Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrataflokksins, og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur …
Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrataflokksins, og Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur og formaður Venstre mætast hér í sjónvarpsumræðum. AFP

99% líkur eru á að Mette Frederiksen, formaður sósíaldemókrataflokksins, verði næsti forsætisráðherra Danmerkur þegar Danir ganga að kjörborðinu eftir rúma viku. Þetta segir stjórnmálafræðingurinn Sigurður Ólafsson sem verður meðal fyrirlesara á fundinum Kosið í Danmörku sem haldinn verður í Norræna húsinu í hádeginu á morgun.

Sigurður, sem var búsettur í Danmörku um nokkurra ára skeið og er sérlegur áhugamaður um dönsk stjórnmál, segir allt benda til þess að næsta stjórn verði vinstri stjórn. Danir ganga til kosninga miðvikudaginn 5. júní og hefur Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur látið í það skína undanfarið að hann sé tilbúinn að horfa til annars flokkasamstarfs en hinna hefðbundnu hægri og vinstri blokka.

„Það er talað  um það í dönskum stjórnmálum að þetta sé ákveðinn nauðvörn á síðustu stundu,“ segir Sigurður og bregður fyrir sig skákmyndlíkingu. „Þetta sé svona eins og að ætla að bjóða jafntefli þegar það eru tveir leikir í mát.“

Síðasti leikur Rassmussen

Allt útlit er fyrir að vinstri flokkarnir muni vinna öruggan sigur í kosningunum. „Þetta gæti þá verið síðasti leikur hjá honum,“ segir Sigurður um Rassmussen og kveður hugmyndina hafa fengið dræmar undirtektir hjá vinstri flokkunum. Hún sé heldur ekki óumdeild í flokki forsætisráðherrans. „Þetta var ekkert rætt þar, þannig að þetta er svolítið sóló-útspil hjá honum. Ef það verður hins vegar einhver stjórnarkrísa þá gæti þetta hins vegar orðið raunveruleikinn.“

Sigurður Ólafsson tekur líklegast að mynduð verði hrein vinstri stjórn …
Sigurður Ólafsson tekur líklegast að mynduð verði hrein vinstri stjórn í Danmörku í þingkosningunum í næsta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort Evrópuþingkosningar um síðustu helgi, þar voru umhverfisflokkar og hægri öfgaflokkar fengu mikið fylgi, gefi ekkert til kynna um möguleg úrslit dönsku þingkosninganna segir hann Dani ekki telja svo vera. „Á Norðurlöndunum og víða annars staðar þá fara Evrópuþingkosningarnar öðruvísi en þingkosningar í  heimalandinu. Það eru oftast sem flokkarnir á jaðrinum fá meira fylgi þar,“ segir Sigurður og kveður oft um meira persónufylgi að ræða í kosningum til Evrópuþingsins. „Danski þjóðarflokkurinn fékk mjög slæma kosningu þar og Venstre [flokkur forsætisráðherrans] eru með  góðan sigur þar, þannig að þetta er oft þvert á það sem hefur verið í gangi. Ég held að fólk sé að lesa takmarkað í þær kosningar, nema kannski það að Danski þjóðarflokkurinn  muni líka tapa mjög miklu fylgi í þessum kosningum.“

Vill hreina sósíaldemókratastjórn

Sjálfur telur Sigurður líklegast að mynduð verði hrein vinstri stjórn. „Þá var kannski meira allt upp í loftið eftir síðustu kosningar. Þá fengu margir flokkar  sem voru harðir á sinni hugmyndafræði mikið fylgi.“ Hann nefnir sem dæmi að þá hafi óvenju margir flokkar lýst því yfir að þeir væru ekki tilbúnir að fara í stjórnarsamstarf. „Það lítur hins vegar út fyrir að þeir séu að tapa eitthvað fluginu núna og hefðbundnu flokkarnir, alla vegna einhverjir þeirra, séu að vinna sig eitthvað til baka.

Lars Løkke Rasmussen tók við forsætisráðherraembættinu árið 2009, þegar Anders Fogh Rasmussen við stöðu aðalritara NATO. Helle Thorning-Schmidt, þáverandi formaður sósíaldemókrata tók svo við sem forsætisráðherra árið 2011, en Rassmussen náði embættinu á ný 2015. Nú bendir hins vegar flest til að Frederiksen taki við keflinu, en hún tók við for­mennsku af Thorn­ing-Schmid sem sagði af sér eftir tapið 2015.

Sigurður segir Frederiksen hafa boðað að hún vilji mynda hreina sósíaldemókratastjórn. „Hún hefur verið mjög hörð á því í kosningabaráttunni og aðdraganda hennar. Hinir flokkarnir í vinstri blokkinni hafa fæstir tekið undir það, þannig að það gæti orðið eitthvað þref fram og til baka,“ segir hann.

Vill innflytjendamálin af dagskrá

Innflytjendamálin hafa oft verið erfið í dönskum stjórnmálum, en Sigurður segir þau þó ekki lita kosningabaráttuna með sama hætti og oft áður. „Þau eru náttúrulega alltaf þarna,“ segir hann. „Núna eru það hins vegar mikið loftslagsmálin eins og víða annars staðar.“

Sósíaldemókratar hafi nálgast innflytjendastefnu hægri stjórnarinnar undanfarið kjörtímabil og eru burðarflokkarnir í danskri pólitík því nú gott sem sammála um innflytjendastefnuna. „Það sem Mette Frederiksen hefur verið að reyna að gera er eiginlega að taka það mál af dagskrá,“ segir Sigurður. Það sé hins vegar mál sem gæti orðið Sósíaldemókrötum mjög erfitt í stjórnarmyndunarviðræðum við aðra vinstri flokka sem séu þeim ósammála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert