Assange of veikur til að vera viðstaddur

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, dvelur nú í sjúkraálmu Belmarsh-öryggisfangelsisins.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, dvelur nú í sjúkraálmu Belmarsh-öryggisfangelsisins. AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, var of veikur í dag til að geta tekið þátt í réttarhöldum vegna framsalsbeiðni bandarískra stjórnvalda gegn honum, en Assange hafði átt að vera viðstaddur úr fangelsinu í gegnum myndbandstengingu. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir lögfræðingi Assange, sem nú dvelur í bresku öryggisfangelsi eftir að hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í apríl.

Bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að fá hann framseldan til Bandaríkjanna svo hægt sé að rétta yfir honum þar. Þar bíða hans 18 ákærur og getur hann átt áratuga dóm yfir höfði sér, verði hann fundinn sekur.

„Því fer fjarri að hann sé heill heilsu,“ sagði Gareth Peirce lögfræðingur Assange og samsinnti dómarinn Emma Arbuthnot þessu.

Talsmenn WikiLeaks hafa sagst hafa miklar áhyggjur af heilsufari Assange og að búið sé að flytja hann á sjúkraálmu Belmarsh fangelsisins.

„Á þeim sjö vikum sem hann hefur verið vistaður í Belmarsh hefur heilsu hans haldið áfram að hraka og hann hefur lést verulega,“ sagði í yfirlýsingu frá WikiLeaks. Sú ákvörðun fangelsisyfirvalda að flytja hann í sjúkraálmuna tali sínu máli.

Framhald fyrirtöku í framsalsmálinu hefur verið ákveðið 12. júní.

Assange sem dvaldi í tæp sjö ár í sendiráði Ekvador í London hefur ítrekað sagst óttast það að verða framseldur til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert