„Ég sá að hann var breyttur“

Abdessamad El Joud, sem talinn er höfuðpaurinn í hinu óhugnanlega …
Abdessamad El Joud, sem talinn er höfuðpaurinn í hinu óhugnanlega máli skandinavísku kvennanna í Marokkó í desember, leiddur fyrir dómara 2. maí, en réttarhöldunum var þá frestað og svo á ný 16. maí. Þau hófust í dag. Ljósmynd/AFP

„Ég vildi heldur óska þess að bróðir minn væri látinn.“ Þetta segir Said Quzaid, bróðir Youness Quzaid, eins aðalákærðu í máli skandinavísku námskvennanna Marenar Ueland frá Noregi og hinnar dönsku Louisu Vesterager Jespersen, sem myrtar voru á hrottalegan hátt í Atlasfjöllunum í Marokkó 17. desember í fyrra þar sem þær voru á ferðalagi.

Eftir tvær frestanir réttarhaldanna, þá fyrri vegna skorts á verjendum, en þá síðari vegna kröfu lögmanna fjölskyldu hinnar dönsku Jespersen um að marokkóska ríkið yrði gert aðili að málinu vegna bótamáls gegn því, hófust réttarhöldin loksins í dag og eru hinir ákærðu, alls 24 talsins, nú allir viðstaddir í réttarsalnum, en ákæruvaldið krefst dauðarefsingar yfir þeim öllum.

„Ég sá að hann var breyttur maður,“ segir Quzaid um bróður sinn, 27 ára gamlan smið og kvæntan föður. Vísar hann til þess að bróðir hans hafi verið auðmjúkur, friðelskandi og hvers manns hugljúfi áður en þær breytingar urðu á trúarsannfæringu hans sem leiddu til þess að 17. desember í fyrra var hann staddur ásamt höfuðpaur málsins, Abdessamad El Joud, í fjalllendi í Marokkó í leit að nasara, sem er skammaryrði yfir kristna, eða gyðingum til að drepa.

Móðir þeirra í áfalli

Quzaid segir bróður sinn hafa margsagt við móður þeirra að hann iðraðist þegar þau mæðginin heimsóttu Youness Quzaid í fangelsið. „Ég vildi heldur óska þess að bróðir minn væri látinn. Móðir mín kom með í fangelsið, hún er enn þá í áfalli, hún trúir því ekki að hann hafi myrt tvo ferðamenn frá Vesturlöndum, hún skilur það bara ekki,“ segir hann.

Youness Quzaid, Abdessamad El Joud og Rachid Afati voru allir …
Youness Quzaid, Abdessamad El Joud og Rachid Afati voru allir handteknir í rútu við umferðarmiðstöðina Place Al Mourabitine í miðbæ Marrakech í Marokkó skömmu eftir ódæðið. Þeir, ásamt 21 öðrum, gætu átt yfir höfði sér dauðadóm. Ljósmynd/Marokkóska lögreglan

 

Aðalákærði í málinu, eða einn þeirra, Abdessamad El Joud, kom fyrir dómara í dag og greindi frá því hver ætlun hóps hans hafi verið í desember: „Við ætluðum okkur aldrei að ráðast á Marokkóbúa eða [marokkóska] ríkið. Við vildum drepa nasara af því að þeir drepa múslimskar konur og börn í stríði sínu við IS [Ríki íslams].“

Dómarinn spurði El Joud þá hvort hann iðraðist gjörða sinna og svaraði hann því játandi. Hann var þá spurður hvort hann styddi Ríki íslams og svaraði þá að hann vissi ekki hvað ætti sér stað utan fangelsismúranna. „Ég veit ekki hver sannleikurinn er núna,“ sagði hann.

Einn Evrópubúi ákærður

El Joud hefur áður greint frá því í yfirheyrslum að hann og föruneyti hans hafi íhugað fjölda fórnarlamba en hafnað því að ráðast gegn mörgum þeirra af því að þau voru í fylgd með marokkóskum leiðsögumönnum.

Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin …
Maren Ueland frá Bryne í Rogaland í Noregi og hin danska Louisa Vesterager Jespersen, rúmlega tvítugar háskólastúdínur í Noregi sem mættu hrottalegum örlögum í Atlas-fjöllunum í Marokkó 17. desember í fyrra. Ljósmyndir/Úr einkasafni/Samsett mynd norska ríkisútvarpið NRK

Eini Evrópubúinn sem ákærður er í málinu er svissnesk-spænskur maður sem grunaður er um að hafa þjálfað að minnsta kosti hluta af hópi El Joud fyrir ódæðin. Hann hefur þó haldið sakleysi sínu stíft fram og undir það tekur El Joud: „Það eina sem ég veit er að hann hafði áhuga á að ganga í sveitir IS á Filippseyjum,“ segir hann, en sýnt hefur verið fram á við rannsókn málsins að El Joud hafi aðeins hitt manninn þrisvar og síðast mörgum mánuðum fyrir árásina í desember.

„Við vitum að þessi réttarhöld munu taka langan tíma. Við því getum við ekkert gert, það er guðs vilji,“ segir Said Quzaid að lokum við NRK.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is