11 létust í skotárás í Virginíu

11 manns létust og 6 særðust í skotárás.
11 manns létust og 6 særðust í skotárás. AFP

Að minnsta kosti 11 manns létust og sex særðust í skotárás á stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð hins opinbera í borginni Virginia Beach í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í dag. Árásarmaðurinn er starfsmaður stofnunarinnar til fjölda ára. Lögreglan felldi árásarmanninn. 

Maðurinn gekk inn í bygginguna og hóf skothríð skömmu eftir klukkan 16 að staðartíma og skaut allt sem fyrir var. Á meðal hinna særðu er einn lögreglumaður en skothelt vesti bjargaði lífi hans.

Talið er að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki. Ekki er vitað hver ástæða árásarinnar er.  Maðurinn er sagður starfa í þeirri byggingu sem hann hóf skothríð á. 

„Ég er algjörlega miður mín yfir þessari hrikalegu árás. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum, fjölskyldum þeirra og vinum,“ segir Ralph Northam ríkisstjóri Virginíu. 

Vitni eru sögð hafa heyrt fólk öskra og því skipað að leggjast niður. Byggingum í næsta nágrenni var lokað og öllum starfsmönnum var gert að yfirgefa þær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert