Assange sæti „sálfræðilegum pyntingum“

Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna um pyntingar fullyrðir að Julian Assange, …
Sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna um pyntingar fullyrðir að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hafi sætt „sálfræðilegum pyntingum“ svo árum skiptir. AFP

„Julian Assange hefur sætt langvinnum sálfræðilegum pyntingum.“ Þetta fullyrðir Nilz Melzer, sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna um pyntingar og sakar hann yfirvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ekvador og Svíþjóð um samstilltar ofsóknir gegn stofnanda WikiLeaks. Segir hann fjölmiðla, samfélagsmiðla, dómara og háttsetta stjórnmálamenn hafa tekið þátt í þeirri meðferð.

Assange dvaldi í sendi­ráði Ekvadors í sjö ár en stjórn­völd í Ekvador sviptu hann hæli í apríl. Breska lögreglan handtók Assange og hefur hann setið í öryggisfangelsi í tæpa tvo mánuði. Assange hefur verið ákærður fyr­ir að brjóta gegn njósna­lög­gjöf Banda­ríkj­anna vegna birt­ing­ar á leyni­leg­um hernaðar- og stjórn­sýslu­gögn­um.

Melzer heimsótti Assange í fangelsið 9. maí síðastliðinn og segist hafa séð „yfirþyrmandi“ sönnunargögn sem sýna fram á að hann hafi orðið fyrir stöðugri, alvarlegri, miskunnlausri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu svo árum skiptir. „Samanlögðum áhrifum þess er einungis hægt að lýsa sem sálfræðilegum pyntingum,“ segir Melzer.

Að hans mati sýnir Assange öll einkenni þess að hafa orðið fyrir sálfræðilegum pyntingum, til að mynda óhóflega streitu, stöðugan kvíða og mikið sálfræðilegt áfall.

Assange, var of veik­ur í til að geta tekið þátt í rétt­ar­höld­um í gær vegna framsals­beiðni banda­rískra stjórn­valda gegn hon­um, en Assange hafði átt að vera viðstadd­ur úr fang­els­inu í gegn­um mynd­band­steng­ingu.

Melzer er mótfallinn því að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert