Green ákærður fyrir að káfa á þjálfaranum

Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green hefur nú verið ákærður fyrir að …
Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green hefur nú verið ákærður fyrir að áreita pilates-þjálfara í heilsulind í Bandaríkjunum. AFP

Breski milljarðamæringurinn Philip Green hefur verið ákærður fyrir bandarískum dómstólum fyrir að áreita pilates-þjálfara kynferðislega.

Breska fríblaðið Metro greinir frá þessu og segir Green hafa verið handtekinn fyrr á þessu ári eftir að pílates-þjálfari ásakaði hann um að hafa ítrekað snert hann á óviðeigandi hátt.

Saksóknari í Pima-sýslu í  Arizona, Lauren Deakin, segir Green eiga yfir höfði sér fjórar ákærur fyrir minni háttar brot og að hver þeirra varði allt að 30 daga fangelsi. Sektargreiðsla eða eins árs skilorð komi einnig til greina.

Það var pilates-þjálfarinn Katie Surridge, sem að sögn Metro, sakaði Green um að hafa „flengt“ hana, snert hana á óviðeigandi hátt og hafa látið óviðeigandi kynferðisleg ummæli falla er hann dvaldi á Canyon Ranch-heilsulindinni þar sem hún starfar. Surridge segist hafa kvartað í tvígang til yfirmanna sinna og Green hafi verið varaður við og beðinn um að láta af hegðan sinni.

Green er sagður hafa neitað ásökununum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann er sakaður um kynferðislega áreitni og fjölluðu breskir fjölmiðar í fyrrahaust um áreitni og kynþáttafordóma hans í garðs starfsfólks síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert