Talinn hafa fjármagnað heimkomu vígamanna

Ríki íslams er sagt hafa komið upp kerfi í Sýrlandi …
Ríki íslams er sagt hafa komið upp kerfi í Sýrlandi sem veiti fjárstuðning þeim erlendu vígamönnum sem óskað þess að snúa aftur heim til Evrópu. Mynd úr safni. AFP

Spænska lögreglan hefur handtekið sýrlenskan karlmann sem er sakaður um að hafa fjármagnað heimferðir liðsmanna vígasamtakanna Ríki íslams frá Sýrlandi til Evrópu.

BBC segir grun leika á að maðurinn, sem ekki hefur verið nefndur á nafn, tilheyri fjármálasviði vígasamtakanna og hann hafi sent fé til vígamanna í Sýrlandi. Peningunum var safnað í Evrópu og voru þeir svo sendir vígamönnum í gegnum óformlegt flutningskerfi, svo nefnt hawala.

Talið er að um 6.000 vesturevrópskir vígamenn hafi gengið til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi og Írak.

Að sögn spænsku ríkislögreglunnar bendir rannsóknin til þess að vígamenn hafi komið upp kerfi í Sýrlandi sem veiti fjárstuðning þeim erlendu vígamönnum sem óskað þess að snúa aftur heim til Evrópu.

„Þessi lögregluaðgerð er hluti í baráttunni gegn þessu nýja kerfi Ríkis íslams, sem eftir að hafa tapað landsvæðum hefur hvatt liðsmenn sína til að snúa aftur heim,“ sagði í yfirlýsingu lögreglu.

Maðurinn, sem er 43 ára er sagður hafa notað „fjölda öryggisaðferða til að fela hver hann væri og til að eiga í stafrænum samskiptum“.

Talið er að um 41.000 manns frá tugum landa víðs vegar um heim hafi gengið til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi og er um fjórðungur þess hóps talinn vera konur og börn. BBC segir 850 manns frá Bretlandi vera í þeim hópi og þar af séu 145 konur og 50 börn. Rannsóknir benda til að um 7.000 manns af þessum hópi hafi þegar snúið aftur til síns heima. Hafa stjórnvöld víða um heim lýst yfir áhyggjum af að harðnaðir vígamenn fái að snúa aftur og að erfitt sé að safna sönnunargögnum til að hægt sé að ákæra þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert