12 létust í árás númer 150

Borgarstarfsmaður í Virginiu í Bandaríkjunum skaut tólf manns til bana og særði fjóra í skotárás í gær áður en hann var særður til ólífs af lögreglu. Skotárásin er sú 150. í Bandaríkjunum það sem af er ári en þar er miðað við að fjórir eða fleiri eru særðir eða drepnir í árás. 

Að sögn lögreglustjórans í Virginia Beach, James Cervera, lést árásarmaðurinn eftir að hafa skipst á skotum við lögreglu á vettvangi sem best verður lýst sem stríðssvæði að sögn Cervera.

Árásin var gerð skömmu eftir klukkan 16 að staðartíma, klukkan 20 að íslenskum tíma, er árásarmaðurinn kom inn á borgarskrifstofur Virgina Beach og skaut handahófskennt á fólk. Einn lést fyrir utan húsið þar sem hann sat inn í bifreið sinni en aðrir fundust látnir á öllum þremur hæðum hússins. Árásarmaðurinn var vopnaður .45-kalíbera skammbyssu með hljóðdeyfi og hlóð byssuna ítrekað á meðan árásinni stóð að sögn Cercvera. 

Skotárásin er númer 150 í Bandaríkjunum það sem af er …
Skotárásin er númer 150 í Bandaríkjunum það sem af er ári. Á alls fimm mánuðum. Um er að ræða árásir þar sem fjórir eða fleiri eru skotnir. AFP

Hann segir að fjórir vopnaðir lögreglumenn hafi náð að stöðva blóðbaðið með því að skjóta árásarmanninn. Ekki tókst að bjarga lífi hans, segir Cervera. 

Frétt CNN

Árásarmaðurinn hét DeWayne Craddock og var fertugur að aldri. Hann starfaði sem verkfræðingur hjá veitu- og umferðarsviði Virginia Beach-borgar. Alls eru íbúar Virginia Beach borgar 450 þúsund talsins en hún er í 320 km fjarlægð frá Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

Vinir, nágrannar og samstarfsfólk

„Þetta er átakanlegasti dagurinn í sögu Virginia Beach,“ sagði Bobby Dye, borgarstjóri Virginia Beach, á fundi með fréttamönnum. Hann segir að þeir sem létust séu vinir, nágrannar og samstarfsfólk.

Megan Banton, sem starfar á sama sviði og árásarmaðurinn, lýsti því í sjónvarpsviðtali hvernig hún og 20 vinnufélagar hennar földu sig inni á einni skrifstofu og náðu að loka henni með því að setja skrifborð fyrir hurðina þannig að árásarmaðurinn komst ekki þangað inn.

Hún segir að tíminn þar til skothvellirnir hættu að heyrast hafi verið eins og heil eilíf. „Við heyrðum skothvelli. Við heyrðum stöðuga skothvelli og við heyrðum lögregluna segja: leggstu niður.“

Hún segir að ekki sé hægt að lýsa því með orðum hvernig það er að lenda í árás sem þessari. Það eina sem hún vilji gera er að komast heim og faðma 11 mánaða gamlan son sinni. „Eina sem ég gat hugsað um var hann og hvernig ég kæmist heim til hans, lifandi.“

Merki Virginia Beach en starfsmaður borgarinnar skaut 12 til bana …
Merki Virginia Beach en starfsmaður borgarinnar skaut 12 til bana á vinnustað sínum í gær. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var upplýstur strax um árásina og fylgdist með úr Hvíta húsinu, samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu. Hann hefur ekki tjáð sig um árásina á Twitter en tilkynnti um að hann myndi bjóða sig fram til embætti forseta árið 2020. 

Öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn, Bernie Sanders, gagnrýnir harðlega vopnalöggjöfina í Bandaríkjunum og hversu mikil áhrif samtök byssuframleiðenda hafa. Almennir borgar séu hvattir til þess að vígbúast til að búast við hinu versta og vera reiðubúnir til þess að mæta „vonda manninum“, segir hann á Twitter.

„Þingið verður að hlusta á bandarísku þjóðina og herða byssulöggjöfina. Þetta fársjúka byssuofbeldi verður að stöðva,“ skrifar Sanders enn fremur á Twitter. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert