Tekur ár frá skóla fyrir jörðina

Greta Thunberg hyggst ekki hefja nám í framhaldskóla í haust …
Greta Thunberg hyggst ekki hefja nám í framhaldskóla í haust með jafnöldrum sínum, heldur ætlar hún að taka næsta árið í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. AFP

Eftir nokkrar vikur útskrifast sænski aðgerðasinninn og upphafsmaður skólaverkfallanna, Greta Thunberg, úr grunnskóla. Hún ætlar þó ekki að fara beint í framhaldsskóla, heldur ætlar hún að nota næsta árið til að einbeita sér alfarið að baráttunni gegn loftslagsvánni.

„Þetta var erfið ákvörðun, en þetta verður að gerast núna,“ hefur sænska dagblaðið Dagens Nyheter eftir Thunberg. Árið ætlar hún líka að nota til að taka þátt í loftslagsráðstefnum í bæði Bandaríkjunum og Chile. Það verður þó að vera án þess að stíga upp í flugvél, því líkt og kunnugt er þá flýgur Thunberg ekki vegna þeirra miklu umhverfisáhrifa sem fylgja fluginu.

Hún segir þó enn eiga eftir að koma í ljós hvernig hún komist yfir Atlantshafið til Ameríkuríkjanna. „Ég er ekki búin að leysa þetta ennþá, en ég hlýt að komast þangað á einn eða annan hátt. Ég mun í öllu falli leita allra mögulegra leiða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina