„Yrði frábær forsætisráðherra“

Boris Johnson er sá frambjóðandi sem Donald Trump stendur með.
Boris Johnson er sá frambjóðandi sem Donald Trump stendur með. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, verði frábær forsætisráðherra þegar Theresa May lætur af völdum.

Trump fer í opinbera heimsókn til Bretlands en þar mun hann meðal annars eiga fund með May. Hún lætur af embætti 7. júní vegna þess að henni hefur ekki tekist að fá samning við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands samþykktan í breska þinginu.

Trump segir í viðtali við The Sun að hann telji að Boris myndi standa sig frábærlega í starfi en í viðtalinu var Trump spurður út í álit sitt á þeim tólf sem hafa lýst yfir áhuga á að taka við starfi forsætisráðherra af May.

„Mér hefur alltaf líkað vel við hann. Ég veit ekki hvort hann verður kjörinn en ég held að hann sé virkilega góður maður og mjög hæfileikarík manneskja,“ segir Trump. Hann segir að nokkrir frambjóðendur hafi haft samband við hann og óskað eftir stuðningi við framboð sitt en upplýsti ekki um hverjir þeir eru. 

Johnson er einn harðasti stuðningsmaður Brexit innan Íhaldsflokksins og segist hann vera reiðubúinn til þess að fara með Bretland út úr ESB hvort sem það er með samningi eður samningslaust.

Trump ítrekar í viðtalinu við Sun gagnrýni á það hvernig May hefur tekist á við Brexit-samningagerðina og að sögn Trump hefur hún látið ESB hafa öll spil á hendi í þeim viðræðum.

Elísabet Englandsdrottning tekur á móti Trump í Buckingham-höll á mánudaginn og eins mun hann eiga fund með Karli Bretaprins. Aftur á móti ætlar Trump ekki að hitta Meghan, eiginkonu Harry prins en hún gagnrýndi hann í kosningabaráttunni 2016. Hún er bandarísk og starfaði sem leikkona í Bandaríkjunum. Trump segist ekki vita hvað hann eigi að segja og hann hafi ekki vitað að hún væri svona illkvittin. En segist vera sannfærður um að hún eigi eftir að standa sig vel sem prinsessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert