Trump hellir sér yfir Khan

Bandarísku forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, koma frá borði …
Bandarísku forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, koma frá borði forsetavélarinnar á Stansted-flugvelli í morgun. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er kominn í opinbera heimsókn til Bretlands en flugvél forsetans lenti á Stansted-flugvelli klukkan 8 í morgun, 9 að staðartíma. Jafnvel áður en hjól vélarinnar snertu flugbrautina var Trump búinn að hella sér yfir borgarstjórann í London, Sadiq Khan, á Twitter.

Þeir hafa löngum eldað saman grátt silfur og sagði Khan í aðsendri grein í Observer á laugardag að Bretar ættu ekki að rúlla út rauða dreglinum fyrir Trump. Svar Trumps nú á Twitter er skýrt og skorinort: Khan væri algjör aumingi (stone cold loser). Þetta eru sömu ummæli og Trump notaði fyrr á árinu á Twitter um eig­in­mann Kellyanne Conway, eins aðstoðarmanna sinna, George. 

Bandarísku forsetahjónin verða í þriggja daga opinberri heimsókn í Bretlandi og í dag munu þau meðal annars snæða með Elísabetu Englandsdrottningu og hann mun einnig eiga fund með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.

Telur Trump að Khan hafi staðið sig feikilega illa sem borgarstjóri og hafi látið illkvittnisleg ummæli falla um heimsókn forseta Bandaríkjanna, þann mikilvæga bandamann Breta. Trump segir að Khan væri nær að einbeita sér að glæpum í London og að Khan minni hann mjög á þann heimska borgarstjóra New York-borgar, Bill de Blasio, sem hafi staðið sig hörmulega í starfi.

Boðað hefur verið til mótmæla víða í Bretlandi í tilefni af heimsókn Trump þangað. Meðal annars í London, Manchester, Belfast og Birmingham.

Theresa May ætlar að ræða við Trump um loftslagsvána og sagði talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar hana ósátta við þá ákvörðun Bandaríkjanna að draga sig út úr Parísar-samkomulaginu. 

Eins er gert ráð fyrir að þau muni ræða málefni kínverska tæknirisans Huawei sem Bandaríkin settu á svartan lista nýverið.

Trump sagði í viðtali við Sun um helgina að hann styddi Boris Johnson til þess að taka við af May sem forsætisráðherra. Eins sagði Trump í viðtali við Sunday Times að Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, ætti að vera hluti af samningateymi stjórnvalda við ESB um brotthvarf Breta úr sambandinu.

Síðar í dag mun hann drekka te með Karli prins og eiginkonu hans, Camillu, hertogaynju af Cornwall, í Clarence House. Í kvöld verður síðan kvöldverður honum til heiðurs í Buckingham-höll. Þar verða auk drottningarinnar hertogahjónin af Cambridge, Vilhjálmur og Katrín, en hertogaynjan af Sussex, Meghan, mun ekki mæta en sonur hennar og Harry fæddist fyrir tæpum mánuði.

Í gær neitaði Trump því að hafa kallað Meghan illkvittna þrátt fyrir að til sé upptaka af viðtalinu þar sem hann segir þetta.  

Forsetahjónin munu gista í sendiráðsbústað Bandaríkjanna, Winfield House, við Regent-garð í miðborg London. Dóttir Trumps, Ivanka, var komin á undan forsetahjónunum til Bretlands og í gær birti hún myndir af sér á samfélagsmiðlum fyrir utan Victoria and Albert Museum.

Bandarísku forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, eru komin til …
Bandarísku forsetahjónin, Donald Trump og Melania Trump, eru komin til London í opinbera heimsókn en þessi mynd er tekin þegar þau ganga um borð í vélina í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert