Aðeins kjarnorkustríð er stærri ógn

Frá loftslagsverkfalli ungmenna í London í maí.
Frá loftslagsverkfalli ungmenna í London í maí. AFP

Tuttugu dagar af banvænum hita á ári. Horfin vistkerfi. Yfir milljarður manna á vergangi. Þetta eru mögulegar atburðarásir sem gætu torvelt samfélögum um heim allan fyrir árið 2050 ef ekki verður gripið til skjótra og róttækra aðgerða til að ná taumhaldi á hlýnun jarðar samkvæmt nýrri skýrslu ástralskrar hugveitu sem CNN greinir frá í dag.

Ekki er um að ræða vísindalega rannsókn heldur tilraun til að lýsa framtíðarsýn sem er byggð á fyrirliggjandi rannsóknum.

Skýrslan málar upp nöturlega mynd þar sem matvælaframleiðsla brestur og sumar af fjölmennustu borgum heims eru að hluta til yfirgefnar.

Formáli skýrslunnar er skrifaður af Chris Barrie, fyrrverandi flotaforingja og yfirmanni ástralska varnarliðsins og segir þar meðal annars að „á eftir kjarnorkustríði er hlýnun jarðar af mannavöldum stærsta ógnin við líf mannsins á jörðinni.“

„Dómsdagur í framtíðinni er ekki óumflýjanlegur,“ segir Barrie í formálanum. „En án án tafarlausra og róttækra aðgerða eru horfur okkar bágar.“

Hnattrænar hörmungar

Andrew King, loftslagsvísindamaður við Melbourne-háskóla sem vann ekki að skýrslunni, segir að þær aðstæður sem þar er lýst séu „trúanlegar“ en að hann haldi ekki að siðmenning muni líða undir lok fyrir árið 2050.

King segist halda að mannkynið muni standa frammi fyrir þeim vandamálum sem minnst er á í skýrslunni fyrir árið 2050 en að ekki væri hægt að áætla strax hve útbreidd þau verða.

Sú framtíðarsýn sem dregin er fram í skýrslunni er sú af hnattrænum hörmungum. Höfundar skýrslunnar, David Spratt og Ian Dunlop sem hafa báðir rannsakað hlýnun jarðar árum saman, vara við því í skýrslunni að tilvist mannkynsins á jörðinni stafar „veruleg ógn af hlýnun jarðarinnar.“

Yfir milljarður manni yrði á vergangi

Í skýrslunni byggja þeir á fyrirliggjandi gögnum um loftslagsbreytingar síðustu ár og áratugi og spá fyrir um það að ef meðalhiti hækkar um 3 gráður á celsíus fyrir árið 2050 mun 55% af fólksfjölda jarðarinnar upplifa yfir 20 daga árlega af hita sem „mannslíkaminn ræður ekki við.“

Við slíkar aðstæður munu fjölmörg vistkerfi, meðal annars á heimskautunum, í Amazon-regnskóginum og í kóralrifjum, hverfa.

Yfir Vestur-Afríku, suðræn svæði Suður-Ameríku, Mið-Austurlönd og Suðaustur-Asíu, yrðu yfir 100 dagar árlega þar sem hitinn yrði banvænn og myndi það leiða til þess að um milljarður manna færi á vergang.

Hækkun á yfirborði sjávar myndi leiða til þess að fólk yfirgæfi hluta af Múmbaí, Jakarta, Hong Kong, Shanghai, Bangkok og aðrar borgir. Um það bil 15 milljónir íbúa Bangladesh gætu ekki búið þar lengur.

Milljón dýrategundir á barmi útrýmingar

Skýrslan er ekki sú fyrsta sem varar við slíkum hörmungum. Í mars síðastliðnum markaði skýrsla Sameinuðu þjóðanna mikil tímamót þegar varað við því að gluggi mannkynsins til að grípa til aðgerða væri að lokast hratt. Spáir skýrslan fyrir um milljónir ótímabærra dauðsfalla vegna loftmengunar, mengaðra ferskvatna og uppskerubresta.

Þá greindi önnur skýrsla á vegum Sameinuðu þjóðanna sem birt var í maí, frá því að um 75% af yfirborði jarðar hefði verið „breytt til muna“ af mannavöldum og að yfir milljón dýrategunda væru á barmi útrýmingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert