Blóðbaðið sem allir gleymdu

Tiananmen-torg 2. júní 1989.
Tiananmen-torg 2. júní 1989. AFP

Fyrir þrjátíu árum síðan, 4 júní 1989, vaknaði kínversk alþýða upp við samfélag sem hafði gjörbreyst á einni nóttu. Í sjö vikur hafði verið útlit fyrir að Kína væri við það að ganga í gegnum gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar, en á aðeins einni nóttu brustu draumar hundruð þúsunda mótmælenda um bjartari framtíð.

Í um það bil áratug hafði efnahagskerfi Kína verið að opnast hægt og rólega fyrir umheiminum og einkaframtaki verið veitt takmarkað brautargengi í Alþýðulýðveldinu eftir áralanga harðstjórn Mao Zedong.

Fyrir þessari þróun stóð þáverandi leiðtogi ríkisins, Deng Xiaoping, sem vildi leggja sitt af mörkum til að sjá Kína blómstra með því að opna á aukinn einkarekstur og markaðsvæðingu. En þegar alþýðan kallaði eftir auknum félagslegum réttindum á borð við tjáningarfrelsi og lýðræði, reyndist leiðtoginn ekki jafn áhugasamur.

Tiananmen-torg 21. maí 1989, áður en blóðbaðið hófst.
Tiananmen-torg 21. maí 1989, áður en blóðbaðið hófst. AFP

Héldu að sigurinn væri þeirra

Mótmælendur hófu að koma saman í apríl eftir fráfall fyrrum leiðtoga kínverska Kommúnistaflokksins, Hu Yaobang. Hu féll frá þann 15. apríl 1989, tveimur árum eftir að honum hafði verið vikið úr embætti aðalritara. Hann var á sinni valdatíð álitinn af almenningi sem einn helsti talsmaður aukins frelsis fyrir kínverska alþýðu.

Þremur dögum eftir fráfall Hu söfnuðust þúsundir syrgjandi námsmanna saman í Peking og kölluðu eftir auknu lýðræði innan kínversks stjórnkerfis, Hu heitnum til heiðurs.

Tiananmen-torg 2. júní 1989 fyrir ofan. Neðri myndin var tekin ...
Tiananmen-torg 2. júní 1989 fyrir ofan. Neðri myndin var tekin fyrr á þessu ári. AFP

Mótmælendur fylltu Tiananmen-torg, Torg hins himneska friðar í hjarta Peking og yfir næsta eina og hálfa mánuðinn óx málstaðnum sífellt fiskur um hrygg. Á fjöldafundi 19. maí komu um 1,2 milljónir mótmælenda saman á torginu sem olli því að þáverandi aðalritari Kommúnistaflokksins, Zhao Ziyang, fór á fund mótmælenda og fór þess á leit að mótmælum yrði hætt.

Zhao var hundsaður af mótmælendum og harðlínumaðurinn Li Peng sem gegndi embætti forsætisráðherra kom á herlögum í borginni þann sama dag. Herbílar fullir af hermönnum tóku að streyma til höfuðborgarinnar en mótmælin héldu áfram.

Þann 30. maí byggðu mótmælendur tíu metra háa styttu á miðju torginu sem þeir kölluðu „Gyðju lýðræðisins“ og átti að auka baráttuhug á meðal mótmælenda. Á þessum tímapunkti héldu mótmælendur að sigurinn myndi falla þeirra megin og að kínversk stjórnvöld myndu gefa eftir takmörkuð félagsleg réttindi til alþýðunnar. En innan kínversk stjórnkerfis urðu harðlínumenn sem vildu útkljá deilurnar með valdi ofan á.

Skutu á almenna borgara af handahófi

Þegar upp var staðið voru viðbrögð stjórnvalda skjót og skilmerkileg. Aðfaranótt 4. júní, eftir tvær spennuþrungnar vikur, mætti bílalest með vopnuðum hermönnum til Peking sem höfðu það verkefni að ryðja torg friðarins, sama hvað það kostaði.

Almennir borgarar þyrptu sér saman á götum Peking og reyndu verja mótmælendur með því að hindra hersveitir stjórnvalda, sem hófu þá skothríð. Borgarar reyndu að svara í sömu mynt með því að kveikja í herbílum, en þeir áttu við ofurefli að etja.

Fréttaskýring CNN greinir frá skelfilegum frásögnum vitna sem sáu skriðdreka keyra yfir óvopnaða mótmælendur og hermenn skjóta af handahófi í mannmergðina. Kínversk yfirvöld staðfestu aldrei dánartölu mótmælenda en ýmis baráttusamtök fyrir mannréttindum áætla að hundruð ef ekki þúsundir mótmælenda hafi fallið í valinn.

Skriðdrekamaðurinn.
Skriðdrekamaðurinn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Leiðtogar mótmælanna voru handteknir og margir þeirra áttu eftir að sitja inni í yfir áratug. Kínversk stjórnvöld hafa alla tíð síðan gert allt sem í þeirra valdi stendur til að fjarlægja allar áminningar og allt umtal um blóðbaðið úr kínverskri sögu og fjölmiðlum, þar sem það er álitið ógn við núverandi stjórnarkerfi í Kína.

Svo virðist sem stjórnvöldum hafi tekist vel til. Í dag, þegar þrjátíu ár eru liðin frá atburðunum segjast fáir hafa um þá heyrt og engar minningarathafnir eða viðburðir verða haldnir á meginlandi Kína.

Breytti sögunni til frambúðar

Atburðirnir 4. júní breyttu kínverskri sögu til frambúðar og gerðu út um vonir um aukið lýðræði. Í dag stendur kínverski Kommúnistaflokkurinn á sterkum grunni og ekkert er því lengur til fyrirstöðu að núverandi forseti alþýðulýðveldisins, Xi Jinping, sitji í embætti svo lengi sem hann kýs.

Þó að kínverskum stjórnvöldum sé mikið í mun að svarfa atburðina úr sögunni, verður þeirra minnst víða annars staðar í dag.

Í taívönsku höfuðborginni Taipei var sett upp gríðarstór eftirlíking af hinum víðfræga „Skriðdrekamanni“, sem storkaði kínverska hernum þegar þeir fóru yfir torgið með því að standa í vegi fyrir skriðdrekum þeirra. Í gær gaf sérstakt ráð um málefni Taívan út yfirlýsingu þar sem skorað var á kínversk stjórnvöld að „horfast í augu við söguleg mistök og biðjast afsökunar á atburðunum sem fyrst.“

Taívanska eftirlíkingin af Skriðdrekamanninum.
Taívanska eftirlíkingin af Skriðdrekamanninum. AFP

„Síðastliðin 30 ár hefur Peking skort hugrekkið til að leiða sögulegt mikilvægi atvikanna sem áttu sér stað 4. júní í ljós,“ sagði í yfirlýsingunni. „Þess í stað voru upplýsingar faldar og snúið upp á sannleikann til að leyna glæpunum.“

Snertir samvisku umheimsins

Í Washington-borg í Bandaríkjunum verður fjöldafundur á vegum fjölmargra mannréttindasamtaka og hefur forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, meðal annarra boðað komu sína. Þá gaf utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, út yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að blóðbaðið snerti enn samvisku fólks um allan heim.

Efri myndin er tekin 6. júní 1989 í kjölfar blóðbaðsins. ...
Efri myndin er tekin 6. júní 1989 í kjölfar blóðbaðsins. Neðri myndin var tekin fyrr á þessu ári. AFP

„Við hyllum hetjur kínversks almennings sem stóðu upp af hugrekki á Tiananmen-torgi fyrir 30 árum og kröfðust réttinda sinna,“ sagði Pompeo í yfirlýsingu sinni og hvatti kínversk yfirvöld til að viðurkenna atburðina og axla opinberlega ábyrgð.

Stærsti viðburðurinn verður síðan haldin í Hong Kong þar sem um er að ræða eina viðburðinn á kínverskri grundu þar sem fjöldasamkoma verður haldin til að minnast atburðanna. Minningarvökur hafa verið haldnar árlega í Hong Kong frá 1990 og er gert ráð fyrir að hátt í milljón manns verði viðstödd í dag.

Stjórna því sem þjóðin sér 

Á Tiananmen-torgi sjálfu hefur öryggisgæsla verið aukin til muna auk þess sem ritskoðun á kínverskum vöfrum hefur verið færð í aukana. Fjölmörgum erlendum blaðamönnum hefur verið meinuð aðkoma að torginu og þeim sem þangað er hleypt eru varaðir við því að taka myndir.

Sumir hafa þó fundið leiðir til að minnast atburðanna á sinn eigin hátt og fara framhjá opinberu eftirliti með aðgerðum á borð við hungurverkföll.

Chen Wei er einn þeirra aðgerðasinna sem ætlar að fasta í sólahring í dag. Í samtali við BBC sagði Wei að hungurverkfall sé það eina sem „verði ekki verið stjórnað“ af yfirvöldum í dag.

Fjölmargar vefsíður erlendra fjölmiðla á borð við New York Times og BBC hafa löngum verið óaðgengilegar í Kína. Í viðtali við CNN sagði Mak Hoi-wah, forstöðumaður Minningarsafnsins um 4. júní í Hong Kong, að slík ritskoðunarárátta kínverska yfirvalda væri skaðleg fyrir þjóðina.

„Án þess að skilja sögulegar staðreyndir getum við ekki haldið áfram og breytt hlutunum. Kínversk stjórnvöld eru að reyna að bæla þetta niður því þau vilja ekki að fólkið í landinu muni eftir misgjörðum þeirra,“ sagði Mak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Sumarhús- Gestahús - Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Bílalyftur vökva-drifnar gæðalyftur
EAE Bílalyftur allar gerðir í boði, skoðið úrvalið á www,holt1.is og facebook...
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...