Löggur sagðar hafa skotið 5 ára dreng

Volodymyr Petrovets, inni í klefa í dómsalnum er úrskurðurinn var …
Volodymyr Petrovets, inni í klefa í dómsalnum er úrskurðurinn var lesinn upp. AFP

Tveir úkraínskir lögreglumenn hafa verið handteknir, grunaðir um að hafa skotið fimm ára dreng til bana er þeir voru drukknir. Málið hefur vakið upp mikla reiði í Úkraínu vegna langvarandi spillingar þar í landi og stöðu mála innan lögreglunnar.

Úkraínska alríkislögreglan sagði að skotárásin hafi verið gerð á fimmtudaginn þegar lögreglumennirnir voru við drykkju í garði í borginni Pereyaslav-Khmelnytsky, 70 kílómetrum suðvestur af Kænugarði.

Í yfirlýsingu saksóknara kemur fram að þeir hafi verið að skjóta á dósir þegar þeir „hittu fimm ára dreng“. Drengurinn, Kyrylo Tlyavov, lést af völdum höfuðáverka á sjúkrahúsi í gær eftir að hafa gengist undir tvær aðgerðir.

Volodymyr Petrovets leiddur í burtu í handjárnum í réttarsalnum.
Volodymyr Petrovets leiddur í burtu í handjárnum í réttarsalnum. AFP

Lögreglumennirnir, Ivan Prikhodko og Volodymyr Petrovets, sögðu upphaflega við yfirheyrslu að drengurinn hefði runnið til og rekið höfuðið í stein. Þeir voru handteknir um helgina og dómstóll í Kænugarði hefur fyrirskipað að þeir sæti gæsluvarðhaldi þangað til réttað verður yfir þeim. Verði þeir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér lífstíðardóm.

Lögmaður Prikhodko, Andriy Chychyrkin, sagði skjólstæðing sinn neita að hafa framið morð af yfirlögðu ráði og að ákvörðuninni um gæsluvarðhald verði áfrýjað.

„Enginn vildi að drengurinn dæi,“ sagði hann við AFP-fréttastofuna og bætti við að aðeins væri hægt að dæma annan mannanna sekan. „Það er ekki hægt að hafa tvo grunaða þegar aðeins einu skoti var hleypt af og ein kúla hitti. Ein kúla og eitt dauðsfall. Skutu tveir sömu byssukúlunni? Hvernig er það mögulegt?“

Dómarinn, lengst til hægri, les upp úrskurð sinn.
Dómarinn, lengst til hægri, les upp úrskurð sinn. AFP

Saksóknarinn Vladislav Volyan sagði aftur á móti að það að skjóta úr vopnum á stað þar sem aðrir gætu einnig verið staddir án þess að þeir sem skjóta vita hvert kúlurnar gætu farið bendi til ásetnings um manndráp. 

Volodymyr Zelensky, nýkjörinn forseti Úkraínu, hefur lofað því að „gera allt sem í mínu valdi stendur til að hinir seku fái sanngjarna refsingu“.

Yfirmaður lögreglunnar í Úkraínu, Sergiy Knyazev, hefur leyst yfirmann lögreglunnar Kænugarði, frá törfum vegna atviksins. „Lögreglan í heild sinni vottar djúpa samúð vegna dauða Kyrylo. Sorg foreldranna er mikil,“ sagði hann.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu. AFP

Málið gæti haft víðtækari afleiðingar vegna aukinnar óánægju almennings í Úkraínu með lögregluna í landinu. Aðgerðir til að gera lögregluna gegnsærri og ábyrgðarfyllri hafa ekki gengið sem skyldi. Tugir mótmæltu dauða drengsins fyrir framan innanríkisráðuneytis landsins og fordæmdu aðgerðarsinnar atvikið sem enn eitt málið þar sem lögreglan heldur að hún geti komist upp með hvað sem er. Kröfðust þeir einnig þess að innanríkisráðherrann Arsen Avakov yrði rekinn. Frekari mótmæli eru fyrirhuguð.  

mbl.is