Vill samstarf við jafnaðarmenn

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lagt til samsteypustjórn með …
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lagt til samsteypustjórn með jafnaðarmönnum. Því tilboði hafnar formaður Jafnaðarmannaflokksins, Mette Fredriksen. AFP

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, lýsti því yfir í dag að hann væri opinn fyrir samstarfi yfir miðju við „flokka með trausta stjórnmálasögu.“ Sagði hann ástæðuna vera að honum hugnast ekki hægristjórn sem nýtur stuðning flokka sem hafa skoðanir sem hann getur ekki sætt sig við, að því er fram kemur í umfjöllun danska ríkissjónvarpsins DR.

Átti hann við tvo nýja flokka sem boða strangari stefnu í málefnum innflytjenda og sagði einnig ekki jákvætt að mynduð verði vinstristjórn sem er háð stuðningi flokka yst á vinstrivæng stjórnmálanna.

Mette Fredriksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, hafnar tillögu Rasmussens og sagði flokk hennar enn standa við fyrirheit um að flokkurinn einn myndi minnihlutastjórn jafnaðarmanna.

Gefa kannanir til kynna að ríkisstjórn Rasmussen muni falla í kosningunum á morgun, en mögulega myndi hún geta starfað áfram fái hún stuðning Nýja borgaraflokksins og Harðrar línu (d. Stram Kurs) Forsætisráðherrann hafnar því hins vegar stuðningi þeirra vegna þeirra stefnu sem þeir standa fyrir, sérstaklega þess síðarnefnda.

Jafnaðarmenn vilja ekki það sem Lars Løkke hefur fram að …
Jafnaðarmenn vilja ekki það sem Lars Løkke hefur fram að bjóða. AFP

Spurð hvort hún útiloki samstarf við Rasmussen svarar Fredriksen: „Ég segi það sama á hverjum einasta degi kosningabaráttunnar og enn ein tillaga Lars Løkke að ríkisstjórnarsamstarfi mun ekki hafa áhrif á það. Þegar Danir ganga að kjörkössunum á morgun, bið ég um umboð til þess að mynda ríkisstjórn jafnaðarmanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert