60 drepnir í Súdan

AFP

Að minnsta kosti 60 eru látnir í átökum í Khartoum, höfuðborg Súdan, að sögn lækna stjórnarandstæðinga. Átök hafa geisað í borginni síðan á mánudag þegar hersveitir hófu að skjóta á óvopnaða mótmælendur. 

Síðan þá hafa liðsmenn hersveitanna farið um götur borgarinnar og ráðist á almenna borgara.

AFP

Í gær tilkynnti Abdel Fattah al-Burhan, sem fer fyrir herforingjastjórn landsins, að vikið hefði verið frá fyrri áformum um að herforingjastjórnin, sem tók sér völd í apríl síðastliðnum, sæti í þrjú ár og afhenti svo völdin til borgaralegra afla. Boðaði Burhan þess í stað til þingkosninga innan næstu níu mánaða. Sagði Burhan að kosningarnar myndu fara fram undir eftirliti alþjóðlegra aðila, en að jafnframt yrði öllum viðræðum við mótmælendum um valdaskiptin hætt. Lofaði Burhan því í ræðu sinni að atburðir mánudagsins yrðu rannsakaðir og fól ríkissaksóknaraembætti Súdans það verkefni.

AFP

Öryggisráðið fundaði í gær að beiðni Breta og Þjóðverja um málið, en Bandaríkjamenn og Bretar fordæmdu aðgerðir hersins á mánudaginn. Fór fundur ráðsins fram bak við luktar dyr. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hins vegar krafist rannsóknar á atburðum mánudagsins. Kínverjar komu í veg fyrir, með stuðningi Rússa, að öryggisráðið samþykkti tillögur Breta og Þjóðverja að fá súdanska herinn til þess að vinna að lausn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert