Mengun banar 100 þúsund börnum

Mengunarský yfir borginni Delí.
Mengunarský yfir borginni Delí. AFP

Sú mikla loftmengun sem hangir yfir indverskum bæjum og borgum verður yfir 100 þúsund börnum undir fimm ára aldri að bana á hverju ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem var birt í morgun.  

Miðstöð vísinda- og umhverfismála (CSE) í borginni Delí skrifaði skýrsluna sem var birt í tímaritinu State of India´s Environment.

Indland hefur verið aftarlega á merinni hvað umhverfismál varðar og í skýrslu Sameinuðu þjóðanna í fyrra kom fram að 14 af 15 menguðustu borgum veraldar væru indverskar. Þrátt fyrir ákall víða að úr heiminum skautuðu indverskir stjórnmálamenn að mestu framhjá vandanum í síðustu þingkosningum.

Fólk á ferðinni í Delí.
Fólk á ferðinni í Delí. AFP

Í skýrslunni sem var birt í morgun kemur fram að loftmengun veldur 12,5% allra dauðsfalla í landinu. Einnig kom þar fram að um 86% vatnsbóla á Indlandi væru „alvarlega menguð“ og að þróun varðandi endurnýjanlega orku í landinu væri lítil.

Í síðasta mánuði voru 280 þúsund rafknúin faratæki á Indlandi sem er aðeins brot af markmiði sem hljóðaði upp á 15 til 16 milljónir árið 2020.

Útblástur gróðurhúsalofttegunda í landinu jókst um rúm 20 prósent á árunum 2010 til 2014, að því er segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert