Nauðgunarkæra gegn Ronaldo felld niður

Nauðgunarkæra gegn Ronaldo hefur verið felld niður en ekki er …
Nauðgunarkæra gegn Ronaldo hefur verið felld niður en ekki er ljóst hvort Ronaldo hafi samið við Mayorga utan dómstóla. AFP

Nauðgunarkæra gegn knattspyrnumanninum og ofurstjörnunni Cristiano Ronaldo hefur verið felld niður.

Lög­regl­an í Las Vegas tók að nýju upp rann­sókn á kyn­ferðis­legu of­beldi sem átti sér stað í borg­inni árið 2009 að beiðni konu sem sak­aði Ronaldo um að hafa nauðgað henni.

Kat­hryn Mayorga seg­ir að Ronaldo hafi ráðist á hana og nauðað henni í hót­el­bergi í borg­inni það ár. Ronaldo seg­ir ekk­ert hæft í ásök­un­um og seg­ir þetta lygi.

Mayorga kærði árás­ina til lög­reglu í Las Vegas skömmu eft­ir að hún átti sér stað. Árið 2010 komst hún að sam­komu­lagi við Ronaldo um að fá greidda 375 þúsund Banda­ríkja­dali fyr­ir að koma ekki fram með ásak­an­ir á hend­ur Ronaldo op­in­ber­lega.

Í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar ákvað Mayorga að stíga fram með ásak­an­ir sín­ar þar sem aðrar kon­ur hafi veitt henni hug­rekki til að greina frá of­beld­inu.

Yf­ir­völd í Las Vegas gáfu út heimild í upphafi þessa árs til að út­vega DNA-sýni úr Ronaldo til að bera sam­an við sýni sem fannst á kjól Mayorga.

Málið hefur nú verið látið niður falla en að sögn Bloomberg-fréttastofunnar liggur ekki fyrir hvort Ronaldo hafi samið við Mayorga utan dómstóla. Tilkynning þess efnis að málsóknin hafi verið felld niður af hálfu stefnanda var lögð fyrir ríkisdómstól í Nevada í síðasta mánuði.

mbl.is